139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það verður að segjast eins og er að það er með öllu óljóst hvað hæstv. forsætisráðherra hyggst þá gera varðandi sameiningu iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé á döfinni að sameina þessi ráðuneyti. Ef þetta frumvarp er ekki liður í því hvað á þá að gera? Hvenær verða þessi ráðuneyti sameinuð? Liggur það fyrir? Er búið að samþykkja í ríkisstjórn að gera það eftir helgina eða síðar, að sameina þessi ráðuneyti? Hvenær verður það gert? Ég spyr ef hæstv. ráðherra segir að þetta frumvarp sé algjörlega óskylt því.

Mig langar líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort eðlilegt sé að frumvarp sem snýr að Stjórnarráðinu sé afgreitt af ríkisstjórninni þannig að einn ráðherra sé á móti því, hefur lýst því yfir, og eftir því sem ég best veit gerði annar ráðherra fyrirvara við málið. Er þetta eðlileg stjórnsýsla og er eðlilegt að mál komi fram með þessum hætti?

Ég efast ekkert um að samkvæmt forsetaúrskurði sé frumvarp stjórnarfrumvarp komi það frá ríkisstjórninni til forsetans, þó að ekki séu allir ráðherrar á því. En ég spyr: Hvaða bragur er á því að sex eða fimm ráðherrar í tíu manna ríkisstjórn sendi frá sér frumvarp og það sé praktíserað sem stjórnarfrumvarp ef hluti ráðherranna er svo á móti frumvarpinu? Hvaða bragur er á því?

Þetta mál er hreint með ólíkindum. Það er líka með ólíkindum, frú forseti, að við séum með þetta mál hér tvo og hálfan dag þegar ljóst er að mikil andstaða er við málið í öðrum ríkisstjórnarflokknum og hjá stjórnarandstöðunni og þingstörfum er haldið í heljargreipum út af þessu máli.

Ég ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra.