139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Í upphafi máls míns vil ég geta þess, af því að hæstv. forsætisráðherra fór inn á það að í nefndaráliti með afgreiðslu á ráðuneytisbreytingum hefði verið fjallað um það með hvaða hætti þetta skyldi gert í framhaldinu, að það liggur ljóst fyrir að Alþingi Íslendinga tók út þann kafla sem sneri að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneytinu og sameiningu þeirra. Þannig að Alþingi hefur svo sannarlega sýnt að ekki er meiri hluti á þinginu fyrir þeirri breytingu.

Hæstv. forsætisráðherra kemur hér inn á það samráð sem verið hefur í gangi frá þessum tíma, að verið sé að vinna skýrslu í því efni. Í ljósi þess að það frumvarp sem nú er fram komið frá hæstv. forsætisráðherra, og hefur verið gagnrýnt hér í tvo heila daga á Alþingi — og miklar efnislegar og góðar athugasemdir og gagnrýni á grundvallarhugsun frumvarpsins hafa komið fram — er kannski rétt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða samráð hafi verið haft umfram það sem kemur fram í frumvarpinu sjálfu. Í frumvarpinu sjálfu kemur fram að einungis hafi verið haft samráð við þröngan hóp innan stjórnsýslunnar. Þær skýrslur sem vitnað er til í frumvarpinu hafa svo sannarlega fengið á sig gagnrýni einmitt innan úr ríkisstjórninni. Þar ber kannski að nefna hæstv. innanríkisráðherra sem gagnrýndi mjög harkalega þær skýrslur sem hæstv. forsætisráðherra vitnar til.

Það er því sjálfsagt að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort ekki hefði verið eðlilegt að það frumvarp sem nú er fram komið hefði farið í eitthvert samráðsferli áður en komið var með þessar breytingar hér inn í þingið sem klárlega fela það í sér að flytja aukin völd frá Alþingi Íslendinga til hæstv. forsætisráðherra sem er þvert á það sem rannsóknarskýrsla Alþingis og þingmannanefndin benti á, enda hefur formaður hennar sagt það hér í umræðunum og fleiri þingmenn sem áttu sæti í þeirri nefnd.