139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[16:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur ljóst fyrir að Alþingi Íslendinga tók út þann þátt sem snerti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið í nýtt atvinnuvegaráðuneyti. Það liggur ljóst fyrir. (Gripið fram í.) Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki enn lagt slíkt frumvarp fram. Þegar það frumvarp sem við ræðum hér í dag er komið í gegn, þarf hæstv. forsætisráðherra kannski ekki að koma fram með það frumvarp, því þarna er einfaldlega verið að gjörbylta þessu. Þetta eru miklu stærri breytingar en hæstv. forsætisráðherra er búinn að tala um að séu í samráði í lengri tíma. Hvaða samráð talar hæstv. forsætisráðherra um að hafi farið fram um það frumvarp sem við ræðum nú? Innan stjórnsýslunnar. Innan stjórnkerfisins. Ekkert fyrir utan það. Í það minnsta ekki innan ríkisstjórnarinnar. (Forsrh.: Jú.) Mig langar að minna hæstv. forsætisráðherra á blaðagrein hæstv. innanríkisráðherra þar sem segir um eina af þessum góðu skýrslum:

„En ekki er mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að skerpa forustuhlutverk forsætisráðherra í ríkisstjórn, aðrir ráðherrar eigi að sitja í skjóli hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til. Nefndin virðist ekki vera í vafa um að allt hnígi þarna í sömu átt. Yfirvald ber að styrkja.“

Þarna er hæstv. innanríkisráðherra, sem situr í ríkisstjórninni og hefur lýst efasemdum um þetta mál, að lýsa einni af þeim góðu skýrslum sem frumvarpið er byggt á. Sá ágæti ráðherra ætti auðvitað að þekkja það eftir að hafa þurft að víkja úr ríkisstjórn vegna afstöðu sinnar til Icesave-málsins.

Þannig að það er ekki hægt að segja að fram hafi farið mikið samráð um þetta mál. Þetta hefur fyrst og fremst verið haft í þröngum hópi innan Stjórnarráðsins. Ekki hefur verið haft samráð við aðra þingflokka. Ekki við hagsmunasamtök. Ekki við hópa úti í samfélaginu. Og það er einmitt nákvæmlega sú gagnrýni sem hæstv. innanríkisráðherra setur fram í þessari grein (Forseti hringir.) sem endurspeglar alla gagnrýnina sem verið hefur í umræðunni hér síðustu tvo daga um þetta mál.