139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða merkingu hv. þingmaður leggur í orðið samráð. Þetta var unnið í (Gripið fram í.) marga mánuði — ætli hafi ekki verið á annað ár sem þetta var unnið í sérstakri nefnd sem um þetta fjallaði. Hún skilaði skýrslu. Sú skýrsla fór inn í ríkisstjórn og var rædd þar, þannig að allir ráðherrar höfðu þessa skýrslu undir höndum í langan tíma. Síðan fór þetta í þann samráðsferli sem ég nefndi áðan hjá fræðimönnum og sérfræðingum í stjórnsýslunni, hjá fyrrverandi ráðherrum — leitað var til margra forsætisráðherra og fyrrverandi ráðherra um það hvernig þeir vildu sjá breytingar á stjórnsýslunni. Síðan hefur þetta verið í samráðsferli við hagsmunaaðila, ætli það sé ekki núna í fjóra mánuði. Það eru yfir 30 hagsmunaaðilar sem hafa farið yfir þetta mál og sett fram sitt álit. Það hefur verið farið í greiningu á því hverju væri hægt að ná fram í hagkvæmni í sameiningu þessara ráðuneyta. Það er fróðleg lesning að fara yfir. Þannig að ég auðvitað blæs á það að ekki hafi verið haft fullt samráð í þessu máli.

Mér finnst að hv. þingmaður eigi nú að leggja sig svolítið fram um að fara yfir það hvað er í þessu frumvarpi. Það er ekkert foringjaræði eins og hv. þingmaður er að tala um. Það var hér foringjaræði fyrir nokkrum árum. Íraksstríðið, hvernig það var meðhöndlað hér, (ÁsmD: Icesave-samningarnir.) er kannski gott dæmi um það. (Gripið fram í.) Sameining bankanna (ÁsmD: Icesave-samningarnir.) er gott dæmi um það. (ÁsmD: Icesave-samningarnir.) Hér er fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir það sem hefur verið of mikið um í Stjórnarráðinu, að það eru tveir eða þrír menn sem eru að taka ákvarðanir. Við þekkjum dæmið úr hruninu að því er það varðar.

Hér er verið að koma á samhæfingu og samræmingu milli ráðuneyta, koma á ráðherranefndum, t.d. í efnahagsmálum, til þess að vera alveg örugg á því að allir ráðherrar séu nú með á nótunum. (Forseti hringir.)

Ég vil síðan segja við hv. þingmann: Ef ég hefði nú haft áhuga á því að sameina þessi ráðuneyti, hefði ég einfaldlega getað gert það með forsetaúrskurði og gæti verið búin að því fyrir klukkan sex í dag. Ef ég hefði áhuga á því.