139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður sagði er augljóst, hvaða skoðun sem menn hafa á málinu að öðru leyti. Þetta er tilfærsla á valdi enda er það í raun og veru forsendan fyrir þessu frumvarpi, þ.e. færa vald frá þinginu til framkvæmdarvaldsins og hæstv. forsætisráðherra sérstaklega.

Varðandi samráðið hef ég dálítið blendinn hug gagnvart því. Samráð eins og ég hef skilið það er þannig að menn ræða saman og ná niðurstöðu sem leiðir af slíku samráði. Það er vitaskuld eðlilegt samráð. Með slíku samráði hefði væntanlega verið hægt að ná meiri sátt um frumvarpið sem snýr að einum veigamesta valdaþætti íslenskrar stjórnskipunar, Stjórnarráði Íslands. Það er samráð eins og ég hygg að við flest leggjum merkingu í það hugtak. Hæstv. ríkisstjórn er búin að snúa þessu hugtaki við eins og svo mörgu öðru. Nú merkir samráð allt annað. Það merkir að kalla saman margt fólk og halda því uppi á snakki, láta það halda að það sé að vinna mikilvæga vinnu og skrifa kannski skýrslur. Síðan þegar því öllu lýkur er þess rækilega gætt, jafnvel þótt menn komist að sameiginlegri niðurstöðu, að það skipti ekki máli, það sé aukaatriði. Ég segi fyrir mína parta að ég þakka guði fyrir að hafa ekki verið kallaður til slíks samráðs um þetta mál. Það hefði örugglega bara leitt til þess að jafnvitlaust frumvarp og hér getur að líta hefði litið dagsins ljós.