139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Komið hefur fram í andvari það vald sem er verið að færa úr þinginu yfir til forsætisráðherra. Það virðist vera sem hæstv. forsætisráðherra líti svo á að hún muni ríkja um langa hríð vegna þess að sífellt er verið að mylja vald undir ráðuneytið. Hæstv. forsætisráðherra virðist ekki átta sig á því að brátt verður tíma Samfylkingarinnar lokið í Stjórnarráðinu og þá situr eftir að búið er að færa forsætisráðherra mikið vald.

Það sem mér finnst vera aðalmálið í frumvarpinu er ekki einungis að í því séu 546 lagagreinar, lengsta frumvarp sem ég hef séð, heldur er því jafnframt skipt upp í 546 kafla sem er einsdæmi í lagasetningu hér á landi, að mínu mati.

Svo virðist vera sem hæstv. forsætisráðherra sé búin að taka forseta Íslands í sátt því að honum er falið mikið hlutverk í frumvarpi þessu. Það eru forsetakosningar á næsta ári og hæstv. forsætisráðherra virðist ekki átta sig á því að áður gæti jafnvel komið til þingkosninga. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra sé búin að taka forsetann í sátt eftir að hann vísaði Icesave-samningunum eftirminnilega tvisvar í þjóðaratkvæði á grundvelli ákvæðis 26. gr. stjórnarskrár.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hvort honum þyki ekki skjóta skökku við að forsætisráðuneytið skuli hafa verið undirlagt um nokkra hríð við að hreinsa lagasafnið eins og það leggur sig til að leggja fram þær breytingar á Stjórnarráðinu að gera ráðherra andlitslausa og án heitis og ráðuneytin jafnframt án nokkurs formerkis. Hefði ekki verið betra fyrir forsætisráðherra sem stýrir þessari verklausu ríkisstjórn að sinna atvinnumálum, málefnum fjölskyldna og skuldaafskriftum en að (Forseti hringir.) leggja alla orku í þetta frumvarp?