139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[17:36]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég ætla að byrja á að vísa í það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í inngangi að umræðunni að hún skildi ekki þegar menn segðu að vinnubrögðin væru ekki vönduð. Hér væru tvær bækur sem gríðarlega mikil vinna hefði verið lögð í. Ef ég byrja á síðari bókinni sem er 93 blaðsíður, fjallar hún um ótrúlega hluti. Hún fjallar um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, um siglingar skipa á skipaskurðum, um ostrurækt og hitt og þetta sem er svolítið fjarlægt okkur Íslendingum.

Ef við rýnum í frumvarpið sjáum við að það skiptist í gríðarlega marga kafla og margar greinar. Hvernig skyldu þessir kaflar og þessar greinar hljóða? Tökum bara I. kafla, 1. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Breyting á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, með síðari breytingum.

1. gr. Í stað orðanna „efnahags- og viðskiptaráðherra“ í 2. mgr. 3. gr. og 5. gr. laganna kemur: ráðherra.“

Tökum síðan einhverja grein af handahófi. Á bls. 81 er kafli sem heitir CDLXXXVIII. Ég veit ekki alveg hvaða tala það er en ég get ímyndað mér að hún sé 488 miðað við greinina. Þar stendur:

„a. Í stað orðanna „sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr., 2. og 4. mgr. 14. gr., 20. gr. og 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: ráðherra.“

Í öllum greinum síðari bókarinnar, eins og forsætisráðherra kallaði svo, er þannig nöfnum fagráðherra breytt einfaldlega í ráðherra eða fagráðuneyti í ráðuneyti. Það er gert nákvæmlega í þeim tilgangi sem þingmenn hafa gert að umtalsefni, til að verkefni séu ekki lögbundin við tiltekin ráðuneyti heldur er hægt að færa þau á milli ráðuneyta. Eins og rakið hefur verið hefur forsætisráðherra það vald.

Það vekur athygli mína að hámark á því hversu mörg ráðuneytin mega vera er algjörlega takmarkað. Þau mega að hámarki vera tíu. Þetta kemur fram í frumvarpi til laga um Stjórnarráð Íslands sem við lukum umræðum áðan en vegna þess að ég komst ekki að vil ég ræða það aðeins.

Mér er spurn: Út af hverju er þetta hámark, tíu ráðuneyti? Af hverju ekki átta ráðuneyti eða tólf ráðuneyti eða að fjöldi ráðuneyta verði að standa á prímtölu eða oddatölu eða einhverju slíku? Hver er tilgangurinn með þessu? Ég skil það alls ekki.

En þetta er kannski ekki aðalspurningin sem vaknar í mínum huga við þetta allt saman heldur: Af hverju er ráðist í þessa gríðarlegu fyrirhöfn og kljúfa með því í fyrsta lagi ríkisstjórnina, í öðru lagi að æsa stjórnarandstöðuna upp á móti sér og í þriðja lagi að eyða öllum þeim gríðarlega tíma sem virðist ætla að fara í þetta mál? Við erum enn þá bara í 1. umr. og þetta er þriðji dagurinn sem við ræðum þetta. Ég skil þetta ekki, hefur fólk ekkert betra að gera en að breyta hlutverki ráðuneyta og slíku núna?

Ég held ég sé með svarið við þessari spurningu, út af hverju menn eru að standa í þessu.

Við skulum skoða plagg sem sett var fram í svokallaðri sameiginlegri þingmannanefnd 27. apríl síðastliðinn sem í sitja þingmenn frá Evrópuþinginu og frá Alþingi. Þrátt fyrir að sá fundur hafi kannski ekki gengið alveg eins og best skyldi er hér í drögum 21 umræðupunktur sem átti að álykta um.

Ef við skoðum 14. punktinn í kafla sem ber heitið, með leyfi forseta:

„Iceland's capacity to assume the obligations of EU membership.“

Sem mundi útleggjast í mjög snöggri þýðingu: Möguleikar eða geta Íslands til að takast á hendur skyldur þess að vera í Evrópusambandinu.

Þá segir í 14. lið:

„Welcomes ongoing administrative reforms, in particular the merging of ministries in Iceland and the potential for efficiency gains that these reforms can bring about.“

Virðulegur forseti. Þetta hljómar í lauslegri þýðingu svo að þingmannanefndin fagni þeirri stjórnskipulagsbreytingu sem verið er að standa að og þá sérstaklega sameiningu ráðuneyta á Íslandi og þeim möguleikum sem þar skapast til aukinnar hagkvæmni.

Þetta skýrir kannski að hluta til af hverju menn eru svona æstir í að fara í svona vinnu sem fjöldamargir þingmenn í þinginu eru búnir að vera eins og spurningarmerki yfir og sem ríkisstjórnin hefur steytt á, hún er klofin og annað slíkt.

Í sama plaggi er kafli sem heitir, með leyfi forseta: „On the economic criteria of EU membership“ sem útleggst í stautþýðingu minni: „Um efnahagsleg skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu“. Förum þar í punkt nr. 8. Þar segir að þingmannanefndin: „Notes the adoption by the Icelandic Government of the Pre-Accession Economic Programme in January 2011, setting economic priorities until 2013.“

Þetta hljómar kannski ekki neitt stórvægilegt nema hvað enginn virðist hafa vitað af því að Ísland væri í einhverju efnahagsprógrammi sem hafi verið samþykkt í janúar á þessu ári þar sem forgangur í efnahagsmálum er settur til ársins 2013. Af minni alkunnu forvitni fór ég að grennslast fyrir um hvað þetta ætti að fyrirstilla vegna þess að ég, eins og sumir vita, hef nokkurn áhuga á efnahagsmálum. Ég gat grafið upp skýrslu á vef efnahags- og viðskiptaráðherra sem bar þetta nákvæmlega þetta heiti Pre-Accession Economic Programme, sem þýðir hagfræðileg aðlögun, getum við sagt, frá janúar 2011. Ég fór að blaða í skýrslunni. Þar kemur fram merkilegur hlutur, að sameining ráðuneyta og umbreyting í Stjórnarráði Íslands sé eitt af markmiðum í þeirri efnahagsáætlun sem Ísland undirgekkst í janúar, án minnar vissu alla vega og margra félaga minna sem ég hef spurt út í þetta.

Við erum því búin að leiða að því nokkuð góð rök hvert svarið er, að ég tel, en þó eru rökin ekki fullnægjandi. Þetta atriði vakti það mikla forvitni mína að ég bað um að kallaður yrði saman fundur um það í efnahags- og skattanefnd sem verður haldinn í fyrramálið. Af frumrannsókn minni á þessu máli, getum við sagt, lítur út fyrir að Ísland hafi gengist undir efnahagsprógramm vegna inngöngu Íslands í Evrópusambandið sem var samþykkt í janúar og verði í gangi til 2013.

Þetta skýrir ýmislegt, ekki satt? Þetta skýrir af hverju þessi gríðarlega kröftugi þrýstingur er á þetta mál og af hverju menn eru tilbúnir til að setja ríkisstjórnina í uppnám eins og við höfum séð undanfarna daga. Þetta skýrir af hverju ríkisstjórnin eða forsætisráðherra er tilbúin til að eyða dýrmætum dögum í eitthvað sem virðist ekki vera mjög merkilegt mál í samhengi stóru hlutanna. Þetta skýrir yfirleitt allt málið. Ég er spenntur að vakna á morgnana en á morgun vakna ég extra spenntur, vitandi að ég sé að fara á fund í efnahags- og skattanefnd þar sem útskýrt verður fyrir mér hvaða efnahagslega prógramm það er sem gengist var undir í janúar síðastliðnum og er einhvers konar aðlögunarprógramm fyrir Evrópusambandsaðild.

Þetta er að stofninum til það sem ég vildi segja í 1. umr. Það á eftir að varpa ljósi á málið í meðförum nefnda og ég kem væntanlega að þessu í 2. umr.

Að lokum vil ég segja að ég tel að það hefði verið hreinlegt og heiðarlegt og það hefði verið sanngjarnt og rétt að þingið vissi af hverju þetta mál er á þeirri ferð sem það er, af hverju svona miklum þrýstingi er beitt og af hverju það virðist vera svo mikið hjartans mál fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórnina, þ.e. einhverja hluta ríkisstjórnarinnar. Við vitum ekki alveg í hversu mörgum deildum ríkisstjórnin er.

Við það læt ég staðar numið og hlakka til að vakna á morgun til að fá útskýringar á þessu máli öllu saman.