139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, vissulega svarar þetta einhverju af spurningunum. Það er vissulega eitthvað annað undirliggjandi því að augljóslega er búið að kortleggja það á einhvern hátt hvar hver málaflokkur lendir. Í kafla 245 er t.d. ekki lengur talað um velferðarráðherra heldur ráðherra sem fer með heilbrigðismál. Hér er t.d. talað um landbúnaðarráðherra og þá er talað um hann sem þann ráðherra sem fari með málefni landgræðslu.

Hér virðist því vera búið að kortleggja hvernig stjórnskipunin á að vera án þess að það komi sem fylgiskjal inn í frumvarpið. Þetta er því mjög einkennilegt, og ég spyr þingmanninn hvort hann sé ekki sammála því. Flækir þetta ekki mikið málin varðandi það að almenningur og landsmenn allir, og þingmenn og ráðherrar sjálfir, átti sig á hvaða málaflokkur er undir hvaða ráðuneyti?

Ég gríp hérna niður t.d.:

„Ráðherra sem fer með málefni menningarminja.“

Hvaða rugl er þetta eiginlega í stað þess (Forseti hringir.) að þarna standi hreinlega menntamálaráðherra eins og verið hefur?