139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það má nú alveg segja hreint út að þetta er vitanlega mjög sérstakt frumvarp að því leytinu til að þetta eru 546 greinar sem fjalla um lítið annað en breytingar á heitum á ráðuneytum og starfsemi þeirra þar sem verið er að taka út fagheiti ráðuneytanna.

Ég verð að segja, frú forseti, að þetta er að mínu viti mjög óheppilegt. Ég undirstrika það sem var gagnrýnt hér í dag, gær og fyrradag að það er verið að taka út ákveðna formfestu sem ríkt hefur í þeim frumvörpum sem hér er vísað í og þeirri vinnu sem hefur einkennt Stjórnarráðið.

Áður en lengra er haldið ætla ég að rifja það upp sem allir vita orðið, að að minnsta kosti einn ráðherra ríkisstjórnarinnar styður ekki þetta frumvarp og annar setur fyrirvara við stuðninginn. Líklega var það árið 1974 sem einn ráðherra studdi ekki frumvarp sem mig minnir að þáverandi forsætisráðherra hafi ætlað að leggja fram og það fór þá þannig að Ólafur Jóhannesson lagði fram þingmannamál í staðinn fyrir að leggja málið fram sem frumvarp stjórnarinnar. Ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum hæstv. forsætisráðherra geri ekki slíkt hið sama, leggi þetta mál fram í sínu nafni í ljósi þess að ekki er eining um það innan ríkisstjórnarinnar. Því má velta fyrir sér hvort það sé nokkuð komið vel fram við þann ráðherra sem er á móti málinu og hinn sem hefur fyrirvara við það.

Það verður líka að segjast eins og er, frú forseti, að í ljósi þess að það er ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar og sérstaklega annars stjórnarflokksins um málið hljótum við að þurfa að velta fyrir okkur þeirri þjónustulund sem Vinstri græn og sérstaklega forusta þess flokks sýnir flokki forsætisráðherra. Það er eins og að það sé undirstrikað, má segja, með þessum frumvörpum hið mikla vald sem forsætisráðherra hefur í ríkisstjórninni.

Varðandi seinni bókina sem er nú til umfjöllunar er eins og ég sagði áðan verið að taka út öll heiti sem skilgreina ráðuneyti. Ég ætla að nefna örfá dæmi sem ég held að séu ekki til þess að auka skýrleika í lagasetningu og umfjöllun um lög í framtíðinni. Til dæmis er sagt á bls. 7, með leyfi forseta:

„Í stað orðsins „innanríkisráðherra“ í 3. mgr. 7. gr. og 10. gr. laganna kemur: sá ráðherra er fer með málefni sýslumanna.“

Ég hefði haldið að það væri nokkuð gott að hafa skýrt í lögum um heiti hvaða ráðherra fer með málefni sýslumanna, svo eitthvað sé nefnt.

Eins er á næstu blaðsíðu, bls. 8, talað um að það eigi að koma inn nafn þess ráðuneytis er fer með málefni landbúnaðarins. Ég velti fyrir mér af hverju ekki megi standa landbúnaðarráðuneyti eða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Dettur einhverjum í hug að velferðarráðuneyti eða eitthvert slíkt ráðuneyti fari með málefni landbúnaðarins? Þetta er ekki til þess að bæta stjórnsýslu okkar að standa svona að málum.

Síðan er það sem var minnst á áðan, frú forseti, á bls. 40 er í 243. gr. talað um þann ráðherra sem fer með málefni nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Bendir þetta til þess að það sé eitthvað óljóst hver eigi að fara með þau mál? Ætlar hæstv. forsætisráðherra sér að flytja málefni nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi í hendurnar á einhverjum öðrum ráðherra en sjávarútvegsráðherra? Ég fæ ekki betur séð en að þetta frumvarp veiti í það minnsta hæstv. forsætisráðherra ráðherra nákvæmlega það vald.

Eins og áðan var nefnt með e-lið þessarar greinar er orðið fjármálaráðherra tekið út en í staðinn kemur „ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins“. Svona er þetta frumvarp gegnumsneitt í 500 og eitthvað greinum þar sem verið er að taka út formfestuna, taka út skýringarnar á því hver gerir hvað.

Mér sýnist að hinn stjórnarflokkurinn, Vinstri grænir, í það minnsta forusta hans, sé í því að uppfylla þær kröfur sem hæstv. forsætisráðherra gerir með bros á vör og ætli sér ekki að standa í veginum fyrir þeim.

Það er svolítið sérkennilegt, frú forseti, að fjalla um þetta mál þegar sá flokkur, Vinstri græn, hefur gefið sig mikið út fyrir það að vera flokkur landsbyggðar, flokkur landbúnaðar, sjávarútvegs og atvinnumála, og stendur svo að því að þynna út og gera óskýra alla umsýslu með þeim málum þegar kemur að lagafrumvörpum og verkefnum Stjórnarráðsins. Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvað komi næst. Hvað verður næst á dagskránni hjá þessum ágæta stjórnmálaflokki?

Aðeins aftur að efnisinnihaldi þessa frumvarps. Þó að það líti út fyrir að vera mjög einfalt og fyrst og fremst nafnabreytingar eru vitanlega mikil skilaboð í þessu frumvarpi. Á bls. 92 stendur í athugasemdum, með leyfi forseta:

„Í samræmi við þessa stefnumörkun er með frumvarpi þessu lagt til að gerðar verði breytingar á lögum þar sem fagheiti ráðherra eða ráðuneytis kemur fyrir. Í stað fagheitisins komi hugtakið „ráðherra“ eða „ráðuneyti“. Í þeim lögum þar sem tveir eða fleiri ráðherrar koma við sögu verði vísað til þess eða þeirra ráðherra sem ekki bera meginábyrgð á framkvæmd laganna með því að tilgreina það stjórnarmálefni sem farið er með. Þegar augljóst er af samhengi viðkomandi ákvæðis hvaða stjórnarmálefni er um að ræða er látið duga að vísa til „hlutaðeigandi ráðherra“ eða „hlutaðeigandi ráðuneytis“.“

Þarna er komið að því að ef það er ekki augljóst þarf einhver að skera úr um og túlka, væntanlega þá hæstv. forsætisráðherra.

Það sem mér finnst einna alvarlegast í þessum texta, þótt hann láti lítið yfir sér, er akkúrat þetta sem við erum búin að gagnrýna hér, mörg hver. Nú skal enginn leyfa sér að segja það, svo ég orði það bara þannig, að þetta sé eitthvert aukamál og ekki alvarlegt sem við erum að ræða. Við erum að ræða um Stjórnarráð Íslands. Þarna er verið að taka út fagheitin. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að það stendur ákaflega í mér að samþykkja og viðurkenna að það sé eðlilegt. Það kemur ágætlega í ljós þegar við lesum þessa málsgrein að hún er að mörgu leyti ekkert sérstaklega skýr. Þegar á að tilgreina hvar stjórnarmálefni eigi að vera getur það verið mjög óljóst og þá er það orðað svo að þegar augljóst er af samhengi viðkomandi ákvæðis um hvaða stjórnarmálefni er að ræða er látið duga að vísa til hlutaðeigandi ráðherra og þá veltir maður fyrir sér hvað gerist þegar það er óljóst.

Frú forseti. Í umræðum í gær gagnrýndi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrri bókina mjög harkalega og í raun einnig það sem við erum hér með í höndunum. Hæstv. ráðherra gerði það í mörgum liðum. Ég náði að skrá hjá mér örfáa punkta úr ræðu hans. Ég náði niður einum átta athugasemdum sem hæstv. ráðherra hefur við framgang þessa máls. Það sem stóð hvað hæst upp úr af mörgum atriðum er að í báðum þessum frumvörpum, báðum þessum miklu bókum, er skorið á formfestuna, er verið að takmarka hlut og vægi Alþingis í þessum frumvörpum er varða breytingar á Stjórnarráðinu. Það er ekki hægt að deila um að það er alveg ljóst samkvæmt stjórnarskránni að með forsetaúrskurði er hægt að breyta Stjórnarráðinu. Það er líklega eitt af því sem var harðast gagnrýnt 2007 þegar breytingin var gerð þá, akkúrat það efni, þ.e. í 4. gr. þess frumvarps að mig minnir, þar sem áhersla var lögð á þetta. Nú er verið að undirstrika enn sterkar að svona sé í pottinn búið. Þar af leiðandi finnst mér með ólíkindum að sá góði hópur er greiddi atkvæði á móti þeim breytingum, fjölmargir þingmenn Vinstri grænna, skuli geta samþykkt að herða enn frekar á því sem var mótmælt og voru greidd atkvæði gegn í júní 2007. Ég er búinn að kíkja á nokkrar ræður er haldnar voru á þeim tíma, m.a. fyrir þá atkvæðagreiðslu. Það er alveg ljóst að það er akkúrat þetta efni, það að færa frá löggjafarvaldinu vald eða áhrif sem það hafði, sem menn voru á móti því að vitanlega er búið að praktísera það að fara með frumvarp inn í þingið þegar verið er að breyta Stjórnarráðinu.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði það einnig að umtalsefni að verið væri að undirstrika að forsætisráðherra gæti með ákvörðun sinni fært mál á milli ráðuneyta. Ég verð að segja að það sem kemur fram í síðustu grein þessa frumvarps rennir stoðum undir málflutning hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar við sjáum að í rauninni er verið að viðurkenna að upp geti komið mjög óljós mál sem þarf að úrskurða um. Í frumvarpinu sem við ræddum í gær og í dag er það að sjálfsögðu undirstrikað í fyrstu greinum þess.

Sjöundi punkturinn sem ég ritaði hjá mér meðan hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talaði er um mikilvægi þess að stjórnsýslan sé skýr. Kemur það akkúrat við þingmannanefndina svokölluðu og þá skýrslu sem við höfum séð frá henni um að stjórnsýslan þurfi að vera skýr. Það er alveg eins og með stefnur stjórnmálaflokkanna, þær þurfa að vera skýrar. Einhver hefði haldið að stefna til dæmis Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði verið býsna skýr í síðustu kosningum um Evrópusambandið og ýmislegt annað en síðan hefur þoka færst yfir og ekki alveg ljóst enn þá hversu mikill skýrleiki þar er á ferð. Bent hefur verið á tengsl þessara frumvarpa og aðildarumsóknarinnar en ég ætla ekki að lengja þá umræðu núna.

Frú forseti. Tími minn er senn á þrotum. Þó að þetta mál sé nú hér við 1. umr. er alveg ljóst að það er og verður mikill ágreiningur um það eins og það liggur fyrir. Hæstv. forsætisráðherra hefði átt að höggva á fyrirsjáanlegan hnút í frumvarpinu, fresta því að leggja það fram og láta ógert að keyra það hér inn. Hún hefði átt að setja af stað alvörusamráð um ferlið. Þegar umdeilt mál eins og þetta er komið inn í þingið eru vitanlega verulegar líkur á því að stjórnarmeirihlutinn beiti afli sínu, þ.e. ef það er stjórnarmeirihluti fyrir þessu frumvarpi, og hraði því í gegnum þingið. Það er óheppilegt þegar kemur að svona stóru máli því að við verðum að geta greint á milli mjög þýðingarmikilla mála sem hafa mikil áhrif til framtíðar og annarra mála sem eru smærri og eðlilegt að menn takist á um í þinginu.