139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að beina tveim spurningum til hv. þingmanns en er að hugsa um að breyta því plani mínu því að ég er mjög hugsi yfir síðustu orðum hv. þingmanns í ræðunni. Ég þakka fyrir hana, þetta var að sjálfsögðu mjög góð ræða, og spyr um þá efnahagsáætlun er hv. þingmaður nefndi. Ég átta mig ekki á þeirri áætlun sem hv. þingmaður er að tala um og mig langar að biðja hv. þingmann að fara á ný yfir tilurð þeirrar áætlunar sem hann nefndi og hressa upp á minnið hjá þeim er hér stendur ef það er þannig að ég er búinn að gleyma henni. Ég verð að segja að það er mjög jákvætt ef ríkisstjórnin hefur sjálf viðurkennt og bent á þau tengsl sem þarna um ræðir svo snemma sem á þessu ári — væntanlega, eða var það á síðasta ári? — um tengsl aðildarumsóknar að Evrópusambandinu og breytinga á Stjórnarráðinu. Það er mjög merkilegt ef svo er.

Við hljótum hins vegar að fagna því ef efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur ákveðið að hafa þessi mál á hreinu og uppi á borðinu. Við sem stöndum hér og erum í þessu starfi á Alþingi höfum hins vegar að sjálfsögðu fyrir löngu áttað okkur á hinum nánu tengslum þarna á milli sem komu meðal annars fram í drögum að bókun sameiginlegrar nefndar Evrópusambandsins og Íslands.