139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara til að rifja það upp gaf efnahags- og viðskiptaráðuneytið út skýrslu í janúar sem hefur gagnvart Evrópusambandinu verið kölluð Economic Programme, efnahagsáætlun, í tengslum við aðildarumsóknina. Talin eru upp hin og þessi mál, hinar og þessar aðgerðir, þingmál og aðrar ákvarðanir og aðgerðir ríkisstjórnar og annarra stjórnvalda sem tengjast aðildarumsókninni efnahagslega. Þar er meðal tilgreindra atriða sameining ráðuneyta sem ráðagerðir eru um á vegum ríkisstjórnarinnar og tengjast auðvitað þeim frumvörpum sem við ræðum hér í dag. Þetta er nokkuð skýrt, þetta er plagg sem vissulega var unnið af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu en lagt fyrir ríkisstjórn að því er mér skilst og kynnt fyrir Evrópusambandinu sem stefna ríkisstjórnarinnar, nokkurs konar stefnuplagg ríkisstjórnarinnar.

Eins og hv. þingmaður þekkir er síðan í þeim dæmalausu ályktunardrögum sem tengjast þessari þingmannanefnd alveg skýrt að það eru að mati þeirra sem sömdu þann texta, hverjir sem það eru, skýr tengsl milli sameiningar ráðuneyta og Evrópusambandsumsóknarinnar. Þar eru taldir upp í kafla möguleikar Íslands til að takast á hendur skuldbindingar ESB-aðildar o.s.frv. þannig að það er alveg skýrt (Forseti hringir.) af hálfu höfundar þess texta. Hafi þetta verið samið af einhverjum embættismönnum (Forseti hringir.) í Brussel spyr maður: Hvaðan fengu þeir þá hugmynd að þessi tengsl væru fyrir hendi?