139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að margt í þessu sé svolítið einsdæmi. Ég held að það sé óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt, að mál sem jafngreinilegur ágreiningur er um innan ríkisstjórnar sé lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Það er óvenjulegt og ég velti svo sem fyrir mér hvernig á því standi. Ég get ekki svarað því frekar en hv. þingmaður, en ég velti fyrir mér hvers vegna hæstv. forsætisráðherra kýs að fara með mál inn í þingið sem augljóst er að allt er í bullandi ágreiningi um og óvíst, jafnvel mjög ólíklegt, að stuðningur sé við í þinginu. Mér finnst það óskynsamlegt hjá forsætisráðherra. Hún kann að hafa sínar skýringar og rök fyrir því, ég þekki þau ekki, en það er óvenjulegt. Ég hygg að það sé einsdæmi sem gerðist hér í fyrradag, að ráðherra í ríkisstjórn komi í ræðustól Alþingis til að mæla gegn stjórnarfrumvarpi, frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Þetta er dálítið sögulegt. Það er allt í kringum þetta dálítið sögulegt og án fordæma. Satt að segja átta ég mig ekki á þeirri herkænsku eða aðferðafræði hæstv. forsætisráðherra sem felst í því að koma með mál inn í þingið sem gerir ekkert annað en að varpa ljósi á bullandi ágreining innan raða ríkisstjórnarinnar sjálfrar.