139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

Landsbókasafn -- Háskólabókasafn.

760. mál
[19:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarp til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Það frumvarp sem liggur fyrir er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti á grundvelli tillagna nefndar sem þáverandi hæstv. menntamálaráðherra skipaði í janúar 2006 og falið var að endurskoða lög um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, annars vegar og lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 71/1994, hins vegar.

Nefndin skilaði tillögum sínum að frumvarpi til nýrra laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn í janúar 2008 og frumvarp í samræmi við tillögur nefndarinnar var lagt fyrir Alþingi haustið 2008 en hlaut ekki afgreiðslu. Þetta frumvarp byggir að undirstöðu til á því frumvarpi sem lagt var fram haustið 2008 en einnig hefur verið tekið verulegt tillit til þeirra athugasemda sem þá bárust hv. menntamálanefnd Alþingis við umfjöllun um málið. Ég mun því annars vegar greina frá meginatriðum frumvarpsins í stuttu máli og hins vegar þeim breytingum sem hafa verið gerðar á frumvarpinu síðan það var lagt fram síðast.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að hlutverk safnsins sem háskólabókasafn er skilgreint að nýju. Nú er því veitt heimild til að veita öðrum háskólum en Háskóla Íslands þjónustu eftir því sem nánar er kveðið á um í gagnkvæmum þjónustusamningum. Nauðsynlegt þykir að endurskilgreina hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í samræmi við breytt hlutverk bókasafna á 21. öld en gildandi lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn áttu rætur í sameiningu Landsbókasafnsins og bókasafns Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra var að búa til eitt safn sem mundi þjóna jafnt sem þjóðbókasafn og bókasafn þjóðarháskólans, Háskóla Íslands. Frá þeim tíma hafa auðvitað orðið talsverðar breytingar á háskólaumhverfinu sem taka þarf mið af.

Í öðru lagi er eitt af meginatriðum frumvarpsins að skilgreina hlutverk safnsins í upplýsingasamfélaginu m.a. með því annast framkvæmd samninga um aðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum sem flestir þekkja á vefsíðunni hvar.is í þeim tilgangi að efla aðgang að erlendum gögnum í þágu vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs. Undanfarin ár hefur safnið séð um þessa framkvæmd samkvæmt sérstöku samkomulagi við mennta- og menningarmálaráðuneytið en nú þykir rétt að lögfesta þetta hlutverk í frumvarpinu sem eitt af viðfangsefnum safnsins.

Frá því að núverandi lög tóku gildi hefur þróun í upplýsingatækni haft mikil áhrif á samfélagið og aukið kröfur til þjónustu opinberra aðila, m.a. með tilkomu almenns aðgengis landsmanna að netinu. Mikilvægt er að löggjöf um safnið taki mið af þessari þróun þannig að hún geti stuðlað að víðtækri þjónustu með nýrri tækni. Þessi landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum sem finna má á áðurnefndri vefsíðu, hvar.is, veitir landsmönnum nú aðgengi að texta þúsunda erlendra vísindatímarita og fjölda gagnasafna auk greiningarskýrslna og rafbóka, og Landskerfi bókasafna tengir saman rafrænar skrár flestra bókasafna í landinu á gegnir.is en þar er einnig hýst þjóðbókaskrá landsins. Bæði þessi verkefni eru mikilvægar grunnstoðir undir vísinda- og rannsóknarstarfsemi í landinu og hafa víðtæk áhrif á starfsemi safnsins. Þeir sem til þekkja vita að rafrænar áskriftir og rafrænn aðgangur að fræðitímaritum eru eitt af undirstöðuatriðum fyrir vísindastarf í landinu. Það má reikna með að í raun og veru muni hlutverk bókasafna, ekki bara Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns heldur allra bókasafna, þróast meira í þá átt í framtíðinni að tryggja aðgang notenda sinna að rafrænum gögnum og enn fremur að upplýsa notendur um hvernig eigi að meðhöndla rafræn gögn. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun tvímælalaust gegna lykilhlutverki í þeirri þróun hér á landi.

Í þriðja lagi er lagt til að stjórnskipulag, verkefni og rekstur safnsins verði sveigjanlegri en nú er í gildandi lögum. Því er lagt til að ákvæði núgildandi laga verði einfölduð um stjórnskipulag, verkefni og rekstur safnsins til að auðvelda stjórnun þess og aðlaga hana að nýjum tímum. Auk þess miða þær breytingar sem felast í frumvarpinu að því að uppfæra einstök ákvæði gildandi laga til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa og þar með að skilgreina betur hlutverk og viðfangsefni.

Eins og ég nefndi áðan hefur þetta frumvarp tekið nokkrum breytingum síðan það var lagt fram og ég mun reifa þær nú í stuttu máli. Skilgreining á safninu í frumvarpinu er að það sé rannsóknarbókasafn og þekkingarveita fyrir alla landsmenn. Þar með er rannsóknarhlutverk safnsins undirstrikað en í umsögnum um frumvarpið á sínum tíma voru gerðar sérstakar athugasemdir við það. Þessar áherslur má enn fremur sjá í verkefnum safnsins sem tíunduð eru í 4. gr. en þar er m.a. rætt í d-lið að ekki aðeins eigi safnið að varðveita handritasöfn og einkaskjalasöfn sem stofnað hefur verið til heldur enn fremur að vinna að frekari söfnun og rannsóknum á íslenskum handritum og einkaskjölum og samsvarandi efni á nýrri miðlum.

Mig langar að nefna breytingu frá fyrra frumvarpi á f-lið 4. gr. sem fjallar um að vinna að rannsóknum og veita aðstoð við rannsóknir á sviði bókfræði, bóksögu og bókasafns- og upplýsingafræði og veita upplýsingar um íslenska útgáfustarfsemi. Þetta rannsóknarhlutverk er mikilvægt. Það rímar mjög við þá stefnumótun sem við sjáum almennt á þjóðbókasöfnum um heim allan, hvort sem við lítum til breska þjóðbókasafnsins, þess danska eða vestur um haf, þannig að mér fannst eðlilegt að við skilgreindum hlutverk okkar landsbókasafns út frá þessu mikilvæga rannsóknarhlutverki á nýmiðlunum en líka á hinum sögulegu miðlum.

Stjórnskipanin er sú að lagt er til sjö menn verði í stjórn, þar af verði tveir tilnefndir af háskólaráði Háskóla Íslands til að undirstrika hin nánu tengsl Háskóla Íslands við safnið sem byggir á stórri uppistöðu, þ.e. bókasafn Háskóla Íslands var í raun fært undir þetta safn og þar með eru þau tengsl undirstrikuð, enn fremur er einn skipaður af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, einn af Upplýsingu, einn af starfsfólki Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og einn er skipaður án tilnefningar af ráðherra.

Mig langar líka að nefna að sérstaklega er kveðið á um hæfi landsbókavarðar, að hann skuli hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins. Öll þessi ákvæði hafa tekið mið af þeim athugasemdum sem komu fram við umfjöllun þingsins og hv. menntamálanefndar veturinn 2008–2009.

Ekki er verið að fela safninu ný viðfangsefni í þessu frumvarpi, fremur er verið að undirstrika ákveðnar áherslur í starfsemi þess og þróun næstu árin. Lögfest er að safnið skuli annast framkvæmd samninga um aðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum. Samhliða þeirri lögfestingu verða væntanlega fjárveitingar vegna framlags ríkisins vegna kostnaðar á samningum um þær áskriftir sem um ræðir í þessum aðgangi og framkvæmd slíkra samninga. Þær fjárveitingar yrðu hluti af fjárveitingum til starfsemi safnsins en ekki sérstakur fjárlagaliður.

Þá er í samræmi við reglur um ábyrgð forstöðumanna á rekstri og starfsemi ríkisstofnana kveðið nánar á um hlutverk stjórnar gagnvart ábyrgð landsbókavarðar á rekstri og starfsemi stofnunarinnar en stjórn safnsins verður eftir sem áður mjög mikilvægur tengiliður þess við Háskóla Íslands, eins og ég nefndi áðan, sem og við háskólasamfélagið allt, vísindasamfélagið og samfélag bókasafna fyrir utan að þar er gert ráð fyrir fulltrúa starfsmanna líka. Stjórninni er ætlað að vera landsbókaverði til ráðgjafar og veita honum umsagnir í einstökum málum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp en að þessu mæltu vænti ég þess, virðulegi forseti, að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntamálanefndar. Ég vona að þar geti náðst góð sátt um málið í ljósi þess að það hefur áður verið rætt í þinginu og verulegt tillit tekið til þeirra athugasemda sem þá komu fram, enda veit ég að lengi hefur verið beðið eftir frumvarpinu af hálfu Landsbókasafnsins og vonandi gengur vel að vinna að því.