139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

Landsbókasafn -- Háskólabókasafn.

760. mál
[20:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið að reyna að kynna mér það undir ræðu hæstv. ráðherra. Eins og ég skil frumvarpið eru þar fyrst og fremst lagðar ákveðnar áherslur varðandi Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og hlutverk þess skýrt. Það er mjög mikilvægt og ég er ánægður með að safnið skuli halda heiti sínu, ég held að það sé mikilvægt að augljóst sé hvert hlutverk þess er.

Ég hef svo sem ekki rekið augun í það enn þá í þessari yfirferð en geri ráð fyrir að ekkert hafi breyst varðandi þjónustu Landsbókasafns – Háskólabókasafns við landsbyggðina og söfn úti á landi. Það er mjög mikilvægt að sú þjónusta sé mjög góð og feli í sér aðgang allra landsmanna að þessu mikla safni og þeim fjölda bóka, greina og tímarita sem þar eru. Ég hef sjálfur mjög góða reynslu af Landsbókasafninu og verð að segja að þar er margt til fyrirmyndar.

Það er mjög mikilvægt að kostnaður við rekstur safnsins og kostnaður bókasafna sem þurfa að nýta sér sérþekkingu og þjónustu safnsins sé þannig að hann íþyngi ekki öðrum minni söfnum.

Víða um land eru stór og smá bókasöfn og er í raun með ólíkindum hversu vel hefur tekist að halda hinum merka menningararfi Íslendinga á lofti og lýsir það sér náttúrlega í miklum áhuga á lestri og bókum. Þar leika bókasöfnin stórt hlutverk og ekki síst hjarta bókasafnanna sem er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Ég mun að sjálfsögðu fylgjast með og reyna að kynna mér betur innihald frumvarpsins en eins og ég hef náð að kynna mér það er það til þess að skýra og uppfæra hlutverk safnsins í takt við breytta tíma í kjölfar þess sem gengið hefur yfir þjóðfélag okkar. Hér er horft til framtíðar. Ég vona að ég skilji frumvarpið rétt, það verður þá bara að koma í ljós ef svo er ekki.