139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

hlutafélög og einkahlutafélög.

641. mál
[20:08]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, sem felur í sér einföldun samruna- og skiptingarreglna.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun 2009/109/EB sem breytir fjórum tilskipunum á sviði félagaréttar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Snerta breytingarnar samruna og skiptingu hlutafélaga og einkahlutafélaga.

Samhliða er lögð fram á þingi þingsályktunartillaga af hálfu utanríkisráðherra varðandi málið sem gefur m.a. skýringu á texta tilskipunarinnar á þskj. 266.

Aðalmarkmiðið með tilskipuninni, sem innleiða þarf samkvæmt efni hennar í íslenskan rétt fyrir lok júní 2011, er að draga úr stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum en á þeim hvíla ýmsar upplýsingaskyldur. Dregið er úr þeim skyldum við vissar aðstæður hvað snertir gerð skýrslna og skjala og birtingu þeirra. Þá er aukin heimild til að nýta m.a. vef félaga.

Í samræmi við þá venju að hafa sem líkastar reglur um samruna og skiptingu hlutafélaga sem einkahlutafélaga eru nú bæði lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um hlutafélög og laganna um einkahlutafélög. Í inngangi að tilskipuninni er m.a. greint frá því að í ákveðnum tilvikum megi draga úr upplýsingaskyldum í félögum varðandi skýrslur og skjöl ef allir hluthafar samþykkja. Það merkir að fyrirhugaðar reglur munu helst eiga við í hlutafélögum og einkahlutafélögum með fáa hluthafa.

Við þessa lýsingu mína á efni frumvarpsins er rétt að bæta að 1. gr. þess snýr ekki að innleiðingu EES-gerðar heldur er lögð til breyting með henni á 59. gr. laganna um hlutafélög þar eð samanburður á greininni við aðra félagaréttartilskipun EES-samningsins hefur leitt í ljós að ekki er fullt samræmi á milli tilskipunarinnar og laganna. Er því lagt til að nánar tilgreint skilyrði í lögunum verði fellt niður þannig að samningsskuldbindingum Íslands sé fullnægt.

Frumvarpið var sent til umsagnar ýmissa aðila á vinnslustigi og bárust umsagnir frá ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja. Varðandi umsögn ríkisskattstjóra er rétt að geta þess að ráðuneytið telur eðlilegt að fylgja þeirri venju sem tíðkast hefur frá því að EES-samningurinn tók gildi að hafðar séu svipaðar reglur um hlutafélög og einkahlutafélög eins og áður greinir og fylgja fordæmum frá Evrópulöndum hvað snertir heimildir til að slaka á reglum varðandi skýrslu- og skjalagerð. Samtök atvinnulífsins telja að slíkt auki samkeppnishæfni fyrirtækja og atvinnulífs og geti sparað fyrirtækjum umtalsverðan kostnað.

Það er rétt að bæta við því að ákvörðun Evrópusambandsins á árinu 2007, sem er grundvöllur þeirrar EES-gerðar sem ætlunin er að innleiða með þessu frumvarpi, miðaði að því að auka samkeppnishæfni hlutafélaga og einkahlutafélaga án þess þó að slíkt hefði neikvæð áhrif með tilliti til verndarhlutverks reglna um félögin. Þá kemur fram í kostnaðarmati að frumvarpið mun ekki hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði það lögfest óbreytt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.