139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

hlutafélög og einkahlutafélög.

641. mál
[20:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að innleiða eða breyta lögum vegna tilskipunar Evrópuþingsins sem dagsett er í september 2009. Ég velti fyrir mér nokkrum atriðum varðandi frumvarpið. Það sem ég rak augun fyrst í er að í athugasemdum um frumvarpið kemur fram að það sé samið með hliðsjón af drögum að dönsku lagafrumvarpi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Erum við að innleiða reglur sem Evrópusambandsþjóðin Danmörk er ekki búin að innleiða eða er með í pípunum hjá sér? Væntanlega eru Danir að undirbúa þá innleiðingu vegna þess að þarna er vísað í drög að frumvarpi. Mig langar því að vita hvort ráðherrann hafi upplýsingar um hvort Danir séu búnir að innleiða eða breyta lögum sínum.

Ég verð að segja að ég hélt að Íslendingar væru búnir að átta sig á því að það er betra að fara sér hægt þegar kemur að tilskipunum Evrópusambandsins en að flýta sér í þeim málum. Ég geri ráð fyrir, og hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég ruglast í vinnuferlinu varðandi þessar innleiðingar, ég verð að viðurkenna að þær rugla mann á stundum, að utanríkismálanefnd fái þetta mál síðar til umfjöllunar ef það er innleiðing á tilskipun. Líklega er ekki svo.

Ég spyr líka hvort það hafi verið kannað og metið hvort ástæða sé til að fá undanþágu frá því að innleiða þessa tilskipun. Ég sé að gerðar eru nokkrar athugasemdir um frumvarpið og mér fannst hæstv. ráðherra ekki útskýra eða fara nægilega vel yfir hvers vegna ekki er tekið tillit til ábendinga ríkisskattstjóra. Ég geri ráð fyrir að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra geri það þegar hann lokar umræðunni á eftir. Ég vonast alla vega til að hæstv. ráðherra geri það þó að forsætisráðherra sjái ekki ástæðu til að gera slíkt.

Þá er talað um að fundið sé að því að verndarhlutverkið gagnvart hluthöfum minnki en svo eru færð rök fyrir því að það sé ekki vegna þess að allir hluthafar þurfi að gefa heimild til þess að skýrslugerð eða vefurinn séu notuð til að miðla upplýsingum, ef ég skil það rétt.

Það streyma yfir okkur tilskipanir og því hljótum við þingmenn að velta því fyrir okkur hvort við séum nógu vel á vaktinni gagnvart því hvort allar þessar tilskipanir og breytingar sem þeim fylgja séu í raun til að bæta lagaumhverfi okkar, en ég geri ráð fyrir að efnahags- og viðskiptanefnd muni fara vel yfir það. En það verður að segjast eins og er, frú forseti, að það slær mig svolítið þegar verið er að vitna í að íslensk frumvörp séu byggð á drögum að frumvörpum í öðrum löndum. Það getur verið að það sé hefð fyrir því þegar kemur að þessum Evrópureglum, hæstv. ráðherra útskýrir það væntanlega fyrir þeim er hér stendur hvernig sá málatilbúnaður er allur.

Það var ekkert fleira sem ég rak augun í, þetta er svo sem ekki langt frumvarp, og lýk ég nú máli mínu.