139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

hlutafélög og einkahlutafélög.

641. mál
[20:17]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok umræðunnar víkja að þeim athugasemdum sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi í máli sínu. Fyrst varðandi þá spurningu hvort sótt hafi verið um undanþágu frá innleiðingu þessarar tilskipunar, það var ekki gert enda mat ráðuneytisins að til þess væri ekki ástæða. Það er sjálfstætt markmið og hefur verið lengi hjá öllum stjórnmálaöflum í landinu að við reynum að halda sem best fullri aðlögun á innri markaðnum á því sem EES-samningurinn tekur til og að sérstaklega á sviði félagaréttar og reglum umhverfis félaga sé óæskilegt að búa til íslenskar sérreglur eða haga þeim öðruvísi en samrýmist grundvallarregluverkinu á hinum evrópska markaði.

Við teljum einnig skynsamlegt að innleiða með þessum hætti einfaldari upplýsingamöguleika fyrir hlutafélög og einkahlutafélög og teljum þar af leiðandi markmið tilskipunarinnar æskilegt, fyrir utan allt annað.

Sjónarmið umsagnaraðila eru auðvitað ólík. Þau eru hins vegar dregin fram hér í greinargerð þannig að þingmenn geti glöggvað sig á þeim og þingnefndin mun væntanlega senda erindið til umsagnar. Það er mat ráðuneytisins að kostirnir við þetta fyrirkomulag séu margfalt meiri en ágallarnir og þó að metnar séu af hálfu ríkisskattstjóra ákveðnar hættur sem feli í sér að með því að létt sé á upplýsingaskyldu félaga er líka alveg ljóst að breyting sem þessi mun auka samkeppnishæfni fyrirtækjanna vegna þess að það verður einfaldara fyrir þau að starfa. Það eru full rök að áliti ráðuneytisins til þess að sömu reglur gildi um einkahlutafélög og hlutafélög að þessu leyti, m.a. í ljósi þess að regluverkið að öðru leyti tekur að flestu leyti til beggja forma, þ.e. grunntilskipunin að baki í þessu efni.

Varðandi það að leita fordæma í danskri löggjöf sem er í smíðum erum við á innleiðingarfresti samkvæmt efni tilskipunarinnar til loka júnímánaðar 2011. Það eru Danir líka og ég tel það mjög góðan sið að leita fordæma úr innleiðingu í annarri löggjöf, ekki bara er það skynsamlegt til að forðast samkeppnishindranir heldur hefur sérstaklega verið sett á fót með ærnum tilkostnaði og miklum fjárveitingum sérstakt verkefni sem heitir landamæraverkefni Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar sem felur í sér að draga úr samkeppnishindrunum milli Norðurlandanna. Stór hluti af þeim samkeppnishindrunum er kominn til vegna ólíkra aðferða við innleiðingu á Evróputilskipunum.

Við höfum mjög langa og góða og farsæla reynslu af lagasamvinnu við önnur Norðurlönd, sérstaklega Danmörku. Lögfræðingar af minni kynslóð lærðu allar bækur á dönsku þó að það sé nú breytt. Það er mjög mikilvægt að halda í þetta samstarf til að draga úr mun milli ríkjanna í innleiðingu löggjafar og til að tryggja sem best samfellu, og jafna og bæta samkeppnisskilyrði íslenskra fyrirtækja á norrænum markaði til að auðvelda Íslendingum að flytja búsetu milli Norðurlandanna. Þar af leiðandi hefur verið lögð á þetta mikil áhersla á vettvangi Norðurlandaráðs eins og ég rakti og þar af leiðandi er mjög jákvætt að af hálfu ráðuneytisins skuli vera haft samráð við okkar næstu nágranna um innleiðingarháttinn.