139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

innheimtulög.

643. mál
[20:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Í afhugasemdum við greinarnar sakna ég aðeins — það kann að skýrast síðar — að ekki séu meiri eða betri útskýringar eins og til dæmis um 2. gr., en hvað um það. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Í hverju fólust þær umsagnir eða athugasemdir, ef einhverjar voru, frá þeim aðilum sem svöruðu? Hér er talið upp dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið, Intrum Justitia, Neytendastofa og Samtök fjármálafyrirtækja. Það sem ég óska eftir að fá upplýsingar fyrst og fremst um er hvort einhver gagnrýni á frumvarpið hafi falist í þessum umsögnum, athugasemdir eða eitthvað slíkt. Í því frumvarpi sem við ræddum rétt áðan um hlutafélög og einkahlutafélög, innleiðingu EES-tilskipunarinnar, var sagt í athugasemdum og greinargerð hverjar helstu athugasemdir umsagnaraðila hefðu verið. Ég held að það sé bara mjög gott að gera það. Það kann að vera að þetta sé svo lítið og sjálfsagt mál að þess sé ekki þörf með þetta frumvarp en ég hefði gjarnan viljað fá örstutt yfirlit hjá hæstv. ráðherra ef hæstv. ráðherra hefur tök á að gefa það núna. Að öðru leyti mun þetta að sjálfsögðu fram við yfirferð nefndarinnar.