139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

ársreikningar.

698. mál
[20:41]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum, á þskj. 1217. Frumvarp þetta er lagt fram til að koma til framkvæmdar hér á landi þeim þáttum tilskipunar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 2006/46 er fjalla um góða stjórnarhætti skráðra félaga á skipulegum verðbréfamarkaði og reglugerðar framkvæmdastjórnar nr. 1569/2007/EB, um eftirlit ársreikningaskrár með félögum utan EES-ríkjanna sem skrá verðbréf sín á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi.

Með frumvarpinu er lagt til að félög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli árlega birta yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í ársreikningum. Verslunarráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og hafa því flest félög á markaði hér á landi birt yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í ársreikningi hingað til.

Í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 1569/2007/EB er kveðið á um skilmála sem reikningsskilareglur þriðju ríkja þurfa að uppfylla til að vera jafngildar alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem Evrópusambandið samþykkir. Reikningsskilareglur þriðju ríkja er hægt að leggja að jöfnuði við alþjóðlegar reikningsskilareglur sem Evrópusambandið samþykkir ef ársreikningur félags er saminn eftir viðurkenndum reikningsskilareglum þriðja ríkisins þannig að það geri fjárfestum kleift að komast að sambærilegri fjárhagslegri stöðu þess sem semur ársreikninginn. Frumvarpið leggur til að ársreikningaskrá, sem fer með eftirlit með alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, meti í samræmi við reglur Evrópusambandsins hvort tiltekið þriðja ríki uppfylli þessa skilmála.

Þessar breytingar á lögum um ársreikninga voru lagðar fram með öðru stærra frumvarpi um breytingar á lögum um ársreikninga á 138. löggjafarþingi. Ekki komu fram neinar athugasemdir frá umsagnaraðilum varðandi þessar tilteknu greinar. Það frumvarp hlaut hins vegar ekki afgreiðslu. Er því farin sú leið að leggja fram frumvarp um þá þætti sem voru óumdeildir í því frumvarpi.

Borist hafa formlegar athugasemdir eða svokallað „letter of formal notice“ frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna þess að frestur til að innleiða tilskipun 46/2006/EB rann út 1. ágúst 2010. Því blasir við samningsbrotamál ef fullnægjandi innleiðing verður ekki fljótlega að veruleika.

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og viðskiptanefndar.