139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

ökutækjatryggingar.

711. mál
[21:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hrós fyrir ítarlega og góða framsöguræðu. Það var samt þannig að ég taldi mig því miður ekki hafa tíma til að gera hinu sögulega ágripi skil sem full ástæða hefði verið til að víkja að enda bótareglur umferðarlaga farnar að nálgast það að verða 90 ára gamlar, þeim hefur einungis tvisvar verið breytt í grundvallaratriðum, 1958 og 1987.

Að því er varðar heimildina sem er í lögunum, sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um, þess efnis að Umferðarstofa hafi heimild til að láta kyrrsetja eða fjarlægja óvátryggð ökutæki og þau sem iðgjald hefur ekki verið greitt af, eða geti falið viðkomandi tryggingafélagi eða öðrum aðilum framkvæmd þeirra úrræða, þá er ástæðan tengd þeirri hættu sem óvátryggð ökutæki skapa og vandanum sem því fylgir. Það er mjög mikilvægt fyrir alla vátryggingartaka að tekið sé á því. Það er skelfilegt fyrir þá sem verða fyrir alvarlegu tjóni af völdum óvátryggðs ökutækis en hinn samfélagslegi kostnaður er líka mikill því að heildarkostnaðurinn af tjóninu öllu saman og tjóni vátryggingafélaganna vegna óvátryggðra ökutækja leggst á alla tryggingartaka.