139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[21:20]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það að finna viðvarandi lausn þá lá það einmitt fyrir og þess vegna er gefinn býsna langur tími þarna. Þetta er ekki alveg einfalt og mikilvægasta forsendan til að ná utan um þetta er í raun að fara í grundvallarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Sá vinnuhópur er kominn í gang, þverpólitískur hópur með fagaðilum sem mun vinna að þeirri endurskoðun. Það liggur mjög mikið fyrir af góðu efni, skýrslur undanfarinna ára frá forverum mínum í starfi í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Við þurfum að draga þá vinnu saman og reyna að koma henni í ákveðinn farveg og endurskoða kerfið í heild.

Við höfum sett okkur það markmið í þeirri vinnu að henni verði lokið í lok ársins og væntanlega munum við leggja fram tillögur fyrir næsta ár. Ég var formaður félags- og tryggingamálanefndar á tímabili og fylgist með hvernig kerfið virkar, hvernig eftiráreikningarnir koma inn í þessu kerfi en mér finnst það samt sem áður flókið. Það er býsna flókið mál bara að innleiða kjarasamningana t.d. með eingreiðslum og öðru slíku þannig að maður setji ekki 50 þús. kr. sem eingreiðslu til einhvers aðila sem er með fulla örorku og það verði þá tekið af með einhverjum öðrum hætti jafnvel innan sama kerfis. Þannig hefur kerfið þróast og það kom ágætlega fram á afmælisfundi Öryrkjabandalagsins í kvöld að það er orðið þannig að það skilur eiginlega enginn orðið hvernig kerfið virkar.

Ég var einmitt að leita eftir því og þarf á því að halda núna. Það þarf ákveðinn tíma til að vinna úr kjarasamningunum og koma þeim yfir í bótakerfin þannig að þeir skili sér beint til þeirra sem við, örugglega allir þingmenn, viljum að þeir nái til.

En svar mitt er að verið er að leita að viðvarandi lausn með endurskoðun á kerfinu í heild þannig að við höfum þarna ákveðinn tíma en þá erum við í skjóli gagnvart þessum víxlverkunum á meðan.