139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

lögreglulög.

753. mál
[21:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996. Markmið frumvarpsins er að gera lögregluna betur í stakk búna að sinna lögbundnum skyldum sínum þrátt fyrir þann niðurskurð sem hún hefur gengið í gegnum á undanförnum árum og fyrirsjáanlegu aðhaldi í ríkisfjármálum á næstu árum. Með stærri rekstrareiningum undir stjórn lögreglustjóra sem sinnir eingöngu stjórn lögreglunnar innan síns umdæmis er unnt að ná meiri samlegð og hagkvæmni í rekstri en raunhæft er að miða við í mjög fámennum lögregluliðum. Fækkun og stækkun lögregluliða skapar forsendu til að lögreglustjórar vinni saman með miklu nánari hætti en nú í þeim tilgangi að stuðla að meiri samhæfingu lögregluliða um allt land. Við erum því að bregðast við bæði skammtímavanda sem rekja má til hrunsins og nauðsynlegs niðurskurðar á útgjöldum ríkisins en einnig að horfa til lengri tíma. Við stefnum að skilvirkari starfsemi innan lögreglunnar.

Í frumvarpinu er lagt til að lögregluumdæmi verði átta í stað 15 eins og nú er. Í fyrri útgáfu frumvarpsins sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi var lagt til að lögregluumdæmi yrðu sex talsins. Í frumvarpi því sem nú var lagt fram hefur við fjölda umdæma og skiptingu þeirra verið horft til svæðaskiptingar innan fyrirhugaðrar sóknaráætlunar fyrir landshlutana almennt eins og ríkisstjórnin hefur lagt fram og er stundum kennd við 20/20.

Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar viðamiklar breytingar á skipulagi löggæslunnar, nú síðast með fækkun og sameiningu lögreglustjóraembætta úr 25 í 15 árið 2007. Ábendingar hafa komið fram m.a. um að breytingin á skipulagi lögreglunnar 2007 hafi ekki verið nægilega róttæk til að tryggja besta nýtingu mannafla innan lögreglunnar alls staðar á landinu. Sum lögreglulið væru mjög fámenn, hlutfall stjórnenda væri í velflestum liðum hátt og markmið um sérstakar rannsóknardeildir hafa ekki fyllilega gengið eftir. Var talið að frekari stækkun lögregluembætta gæti enn aukið slagkraft lögregluliða til að markmiðum sem sett voru með breytingunum 1. janúar 2007 yrði náð. Ég er hins vegar fylgjandi því að fara hægt í sakirnar þannig að ég gagnrýni ekki þær ráðstafanir sem gripið var til á árinu 2007 hvað það snertir. Það var sem sagt skref í þá átt sem við erum að halda áfram við nú.

Í ljósi góðrar reynslu af fækkun lögregluumdæma á árinu 2007 var ákveðið á árinu 2009 að fara yfir stofnanauppbyggingu innan lögreglunnar ásamt umdæma- og verkefnaskiptingu. Slík endurskoðun þótti brýn í ljósi erfiðara aðstæðna í fjármálum ríkisins og leita þurfti leiða til að þeir fjármunir sem veittir væru til löggæslunnar nýttust sem allra best. Markmið endurskoðunarinnar var ekki síst það að komast hjá því að vegið yrði að grunnþjónustu lögreglunnar með því að leita skynsamlegra leiða til að mæta lægri fjárveitingum til hagræðingar fremur en niðurskurði í þjónustu. Skipaður var starfshópur á árinu 2009 til að vinna að því verkefni og var það eindregin niðurstaða starfshópsins að stækka þyrfti lögregluumdæmi frá því sem nú er.

Í frumvarpinu er lagt til að lögregluumdæmi verði eftirfarandi: Höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland og Suðurland. Lagt er til að ráðherra verði heimilað að fela sýslumanni að fara með daglega lögreglustjórn í umboði lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi enda sé það heppilegt og skynsamlegt í ljósi aðstæðna í landshluta. Þannig verði unnt að taka tillit til aðstæðna í einstökum landshlutum þar sem samgönguerfiðleikar og ákveðin einangrun gera að verkum að heppilegt kann að þykja að halda í það fyrirkomulag að dagleg verkstjórn sé í höndum sýslumanns. Kunna slíkar aðstæður t.d. að vera fyrir hendi í Vestmannaeyjum. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þeim möguleika sem fólginn er í frumvarpinu að þessu leyti.

Í frumvarpinu er lagt til að umdæmismörk verði ekki lögbundin heldur ákveðin með reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Rökin fyrir því að lögbinda ekki umdæmismörk eru einkum þau að fjöldi sveitarfélaga í landinu hefur tekið breytingum undanfarin ár og gæti verið nauðsynlegt að hnika umdæmum til t.d. vegna sameiningar sveitarfélaga eða jafnvel vegna eindreginna óska heimamanna í einstökum byggðarlögum um að tilheyra öðru lögregluumdæmi.

Þá er talið rétt að kenna embættin ekki við tiltekna þéttbýliskjarna eða sveitarfélög eða taka með öðrum hætti afstöðu til þess í lögunum hvar starfsstöðvar og varðstofur innan umdæmisins eru staðsettar. Gert er ráð fyrir að ný, sameinuð embætti taki til starfa 1. janúar 2012. Fyrir þann tíma verði skipuð sérstök verkefnisstjórn sem hafi með höndum innleiðingu breytinganna. Miðað er við að ný embætti lögreglustjóra taki við öllum réttindum, eignum og skyldum þeirra lögregluembætta sem þau leysa af hólmi. Þar á meðal taki ný embætti við öllum starfsmönnum eldri lögregluembætta á sömu starfskjörum að undanskildum lögreglustjórum eldri embætta, en störf þeirra verði lögð niður.

Í frumvarpinu er lagt til að samstarf lögreglu og sveitarstjórna verði eflt með því að sveitarstjórar sem hafa tiltekið stöðuumboð í sveitarfélögum sitji í samstarfsnefnd um málefni lögreglunnar í stað sveitarstjórnarmanna sem tilnefndir eru af hálfu sveitarstjórna. Er talið skilvirkara að hafa sveitarstjórana sem hafa ákveðið stöðuumboð innan sveitarfélagsins í nefndunum.

Í samræmi við fækkun lögregluumdæma samkvæmt frumvarpinu er lagt til að breyta þeirra skipan sem nú er, að rannsókn alvarlegra og stærri brota fari fram innan sérstakra rannsóknardeilda innan átta lögregluembætta. Er samkvæmt frumvarpinu miðað við að rannsóknir fari fram í því umdæmi þar sem brot er framið, kveði ráðherra ekki á um annað. Er lagt til að ráðherra setji samkvæmt tillögu ríkissaksóknara nánari reglur um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn sakamála.

Í frumvarpinu er lagt til að lögreglustjórar sinni framvegis alfarið lögreglustjórn og gegni ekki jafnframt sýslumannsembætti eins og nú er í 13 af 15 lögregluumdæmum. Eru rökin fyrir því þau að kröfur til löggæslu hafa aukist verulega á undanförnum árum og því þarf lögreglustjóri að geta sinnt óskiptur verkefnum lögreglustjóra til að standa undir þeirri ábyrgð sem hann ber lögum samkvæmt. Er miðað við að þeir sem skipaðir eru lögreglustjórar skuli njóta forgangs til skipunar í hin nýju embætti lögreglustjóra og er heimilt að flytja þá í hin nýju embætti á grundvelli 36. gr. starfsmannalaga. Þeim lögreglustjórum sem ekki hljóta skipun í embætti lögreglustjóra skulu boðin störf í hinum nýju lögregluembættum.

Þá leiðir það af aðskilnaði embætti sýslumanna og lögreglustjóra að lagt er til að ýmiss konar leyfisveitingar verði fluttar til embætta sýslumanna frá lögregluembættum. Eru ýmsar leyfisveitingar faldar sýslumönnum með þessum breytingum en raunin hefur verið sú að mikill fjöldi leyfa sem krefst aðkomu lögreglustjóra samkvæmt lögum hefur í reynd ekki verið afgreiddur af lögreglumönnum heldur af almennum starfsmönnum sýslumannsembætta. Ekki er lagt til að breyting verði gerð á hæfisskilyrðum lögreglustjóra frá því sem nú er en þó er lagt til að kveðið verði með skýrum hætti á um að lögreglustjóri megi ekki hafa gerst sekur um refsivert athæfi sem telja má svívirðilegt að almenningsáliti né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Sams konar hæfisskilyrði er sett um lögreglumenn almennt. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu.

Í frumvarpinu er lagt til að lögreglustjóri skipi yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna í stað ráðherra eins og nú er og að lögreglustjórar skipi aðra lögreglumenn, en samkvæmt núgildandi lögum skipar ríkislögreglustjóri lögreglumenn. Því er eðlilegt að skipan starfa innan lögreglunnar sé ekki í höndum ráðuneytisins.

Í frumvarpinu er dregið úr þeirri áherslu sem var að finna í fyrra frumvarpi á að færa verkefni frá ríkislögreglustjóra til einstakra lögreglustjóra. Er talið skynsamlegra að breyta skipulagi lögreglunnar í áföngum og taka ekki til við endurmat og hugsanlega uppstokkun á verkaskiptingu innan lögreglukerfisins fyrr en reynsla hefur fengist af nýrri umdæmisskiptingu. Til að skapa meira svigrúm við innra skipulag lögreglunnar er lagt til að í stað skyldu til að skipa aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum komi heimild til slíkrar skipunar.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.