139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

kostnaður við kjarasamninga.

[14:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Það er alveg ljóst að til að þessir kjarasamningar geti gengið upp verður að verða hér mikil breyting á hagvaxtarhorfum. Það er ekkert sem maður sér í kortunum sem bendir til þess að þær breytingar séu neitt fyrirsjáanlegar. Allar þær spár sem hafa verið gerðar og ég hef verið að vitna til, m.a. frá Hagstofunni, Seðlabankanum og frá danska hagfræðingnum sem kom um daginn, benda allar í sömu áttina að við séum að festast í allt of lágum hagvexti og hættan er auðvitað sú að annars vegar leiði þetta til víxlhækkana kaupgjalds og verðlags og það hafi síðan áhrif á kaupmátt almennings og hins vegar að þetta kunni að leiða til uppsagna. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt við þessar aðstæður að ríkisstjórnin beiti sér af öllu afli fyrir því að koma af stað verkefnum, stuðla að úrlausn á skuldavanda minni og meðalstórra fyrirtækja, eyða óvissu í sjávarútvegi o.s.frv. Síðan er náttúrlega ljóst að þetta mun hafa bein áhrif á hið opinbera vegna þess að þetta er auðvitað á vissan hátt leiðarljós fyrir samninga (Forseti hringir.) á opinberum markaði fyrir utan það að þessum samningum fylgja miklir fyrirvarar, svo sem eins og það að gengi krónunnar styrkist um 12–15% fyrir árslok næsta árs.