139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

gengi krónunnar.

[14:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nú var ég ekki á þessum fundi með Seðlabankanum og er ekki til frásagnar um hvernig þar var um þetta fjallað og það skiptir máli hvort þetta var sett fram sem ósk og skoðun Seðlabankans að þetta ætti að gerast eða spá um að þetta gæti gerst. Það þekki ég ekki.

Það sem ég var að vitna til er það og er engin speki að það mundi auðvitað leggjast með okkur í verðbólgumálunum ef gengið styrktist og það mundi þá a.m.k. vega upp á móti þeim hækkunum sem orðið hafa á tilteknum kostnaðarliðum sem við erum að flytja til landsins og hefur valdið okkur erfiðleikum að undanförnu. Gengi krónunnar hefur gefið nokkuð eftir frá áramótum, að vísu mismunandi eftir gjaldmiðlum, og þar hefur væntanlega tvennt aðallega verið á ferðinni. Annars vegar árstíðabundin sveifla, því að það er auðvitað minni afgangur af þjónustujöfnuði yfir vetrarmánuðina en sumarmánuðina, og hins vegar sú staðreynd að Seðlabankinn keypti upp mjög mikið af gjaldeyri fyrir og um áramótin og má kannski segja þurrkaði dálítið upp markaðinn í aðgerðum sínum til að rétta af gjaldeyrisójöfnuð bankanna. Það kann að þurfa einhvern tíma til að jafna sig og er vonandi að gerast núna.

Ef við horfum hins vegar á hinar undirliggjandi stærðir er matið það að um 10% afgangur sé á undirliggjandi viðskiptajöfnuði og myndarlegur afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði. Það er ekkert sem bendir til annars en að sú þróun verði t.d. mjög hagstæð í sumar, samanber spár um mjög mikil umsvif í ferðaþjónustu sem ættu að tryggja að þjónustujöfnuðurinn verði mjög jákvæður á næstu mánuðum. Þegar þetta er haft í huga og sú staðreynd að gengi krónunnar er um 20% undir langtímameðaltali hljótum við að geta gert okkur vissar væntingar um að það styrkist frekar en hitt með ýmsum fyrirvörum sem tengjast meðal annars því hvernig farið verður í afnám gjaldeyrishafta og annað í þeim dúr. Samkeppnisstaða útflutnings- og samkeppnisgreina býður tvímælalaust upp á það að gengið styrkist þó nokkuð (Forseti hringir.) áður en það fer að valda vandræðum þar og það hefði jákvæð bæði kaupmáttar- og verðlagsáhrif ef það gerðist.