139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

NATO og flóttamenn frá Afríku.

[14:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mikill fjöldi flóttamanna reynir nú að komast frá Norður-Afríku til landa í Evrópu, oftast til ítölsku eyjunnar Lampedusa. Breska dagblaðið The Guardian sagði frá því í gær að 61 flóttamaður hafi á þeirri vegferð ekki drukknað heldur beinlínis dáið úr þorsta og hungri hver af öðrum á kænu sem þetta fólk var á, um 70 manns, börn og gamalmenni, konur og karlar.

Kannski væri þetta ekki í frásögur færandi því miður, frú forseti, ef ekki bærust líka fregnir af því að herskip og vélar á vegum Atlantshafsbandalagsins sem eru þarna í miklum fjölda, höfðu séð til flóttafólksins og látið það eiga sig, ekki komið því til bjargar.

Ítalskir landamæraverðir vinna að því allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, að bjarga flóttamönnum sem reyna að komast til Evrópu undan því ástandi sem nú ríkir í Líbíu og reyndar víðar en helst í Líbíu þar sem hersveitir Gaddafís reyna að murka lífið úr eigin borgurum. En ef satt reynist er óneitanlega dapurlegt ef sömu hersveitir og hafa fengið umboð til þess frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna að bjarga almennum borgurum í Líbíu bjarga svo ekki því fólki sem á vegi þeirra verður á Miðjarðarhafinu. Það gengur beinlínis í berhögg við alþjóðasamninga og Genfarsamninginn.

Nú veit ég ekki hvort hæstv. utanríkisráðherra hefur haft færi á að kynna sér málið eða hvort frekari upplýsingar hafi komið frá NATO um málið. Ekki hefur verið staðfest að þarna hafi verið um skip frá NATO að ræða, reyndar var sagt að þetta hefðu verið frönsk skip undir óbeinni stjórn NATO (Forseti hringir.) á svæðinu. Ég vil inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hvort hann viti um málið og hafi einhverjar upplýsingar um það.