139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

NATO og flóttamenn frá Afríku.

[14:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sammála er ég því eins og raunar flestu sem kemur frá hv. þingflokksformanni Samfylkingarinnar. Einmitt þess vegna var Ísland á meðal allra fyrstu ríkja til að samþykkja fjárframlög til þess að draga úr neyð í Líbíu. Það var einmitt þess vegna sem Ísland og reyndar þingheimur allur á þeirri stundu sem sveitir Gaddafís stóðu gaddaðar járni og ætluðu með eldi og eimyrju gegn íbúum Bengasi og ég tók þá ákvörðun sem ég tók fyrir hönd Íslands.

Ég get vel fallist á að ég sé þannig ábyrgur fyrir því, eins og fleiri, sem úrskeiðis kann að fara í aðgerðunum í Líbíu en ég er algjörlega ósammála því að Ísland eða Íslendingar beri með einhverjum hætti ábyrgð á því, ef satt reynist, að herskip, jafnvel þó að þau tilheyri Atlantshafsbandalagsþjóð, bregðist svona gersamlega skyldu sinni og öllum alþjóðlegum samningum um mannúð, (Forseti hringir.) líka hinum óskráðu reglum sem gilda í samskiptum fólks.