139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[14:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Vert er að minna á, enn og aftur, að með þeim lögum sem sett voru í desember var verið að flýta uppgjöri lána og kveða á um einfalda reiknireglu, hvernig ætti að standa að endurútreikningi til að koma í veg fyrir að tugþúsundir heimila þyrftu að leita til dómstóla til að fá úrlausn mála sinna. Þetta hefur tekist ágætlega.

Það er líka rangt sem hv. þingmaður segir að bönkum hafi verið treyst sjálfum til að hafa sjálfdæmi um útreikningana, þvert á móti er í lögunum kveðið á um eftirlit umboðsmanna skuldara sem síðan hefur verið staðfest með reglugerð. Umboðsmaður skuldara fer með eftirlit og tryggir að bankarnir fari að réttum leikreglum.

Hv. þingmaður staðhæfir að útreikningsreglurnar séu með öðrum hætti í lögunum en ráða megi af niðurstöðu Hæstaréttar. Þar er ég einfaldlega ósammála. Það liggur líka fyrir að lögin frá því í desember rýra í engu betri rétt sem skuldarar kunna að eiga og það er sjálfsagt að fólk láti reyna á þann rétt sinn.

Hv. þingmaður spyr hvort Alþingi hafi löggjafarvaldið. Það er alveg rétt, Alþingi hefur löggjafarvaldið en ekki vald til að skera úr um hvaða reglum eigi að beita við samninga sem þegar hafa verið gerðir og eru gildir að öðru leyti. Þar verður Hæstiréttur að fá að tjá sig um skuldaraskipti milli aðila. Það hefur Hæstiréttur gert og löggjafinn getur ekki gengið lengra en Hæstiréttur hefur markað reglu um í dómum Hæstaréttar.

Virðulegi forseti. Mikilvægt er að menn hætti að fiska stöðugt í gruggugu vatni í þessum málum. Það liggur ljóst fyrir hver ásetningur löggjafans var. Vissulega er það svo að einstakir aðilar vilja fá meiri og betri rétt en ráða má af dómunum í desember og löggjafinn gat ráðið af þeim. Þeir verða þá að láta á þann rétt (Forseti hringir.) reyna fyrir dómstólum og vonandi gengur þeim vel.