139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[14:28]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Nú væri ágætt, frú forseti, ef ráðherrann gæti nefnt hvenær Hæstiréttur úrskurðaði um afturvirknina, að endurreikna skuli lán frá lántökudegi, því að mér vitanlega hefur hann ekki gert það. Í fjölmörgum vönduðum umsögnum frá umsagnaraðilum lá fyrir að þetta kæmi ágætlega út fyrir fólk sem skuldaði undir 1 milljón í skammtímalán en kæmi illa út og allt upp í mjög illa fyrir þá sem skulduðu meira en 1 milljón króna, sérstaklega þá sem voru með húsnæðislán.

Ég velti því fyrir mér hvort ráðherrann treysti sér til að vinna með hag almennings og viðskiptavina bankanna að leiðarljósi. Það verðum við að fá á hreint því ef hann treystir sér ekki til þess verður hann að víkja og það sem fyrst.