139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

lax- og silungsveiði.

202. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað áfram um málið frá því að 2. umr. fór fram í mars sl. og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson, Ingimar Jóhannsson og Baldur Erlingsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Sigurð Helgason, Einar Ólafsson og Gísla Rúnar Gíslason fyrir hönd nokkurra eigenda lands við Haffjarðará, héraðsdómslögmenn.

Hinn 1. mars sl. barst nefndinni erindi frá nokkrum eigendum lands við Haffjarðará þar sem tekið var undir tillögur 1. gr. frumvarpsins um breytingar á 10. gr. laganna þess efnis að heimild til innlausnar veiðiréttinda yrði framlengd um fimm ár. Lögðu landeigendurnir áherslu á framlenginguna, meðal annars á þeim grundvelli að fulltrúar nýrra kynslóða hefðu tekið við búsforráðum jarða sem liggja að Haffjarðará og þeir hefðu hug á að láta reyna á innlausn veiðiréttinda. Þá kom fram að eldri landeigendur hefðu á sínum tíma reynt að leysa til sín veiðiréttinn en þeim innlausnarmálum hefði lokið án árangurs sökum formgalla. Máli sínu til stuðnings bentu landeigendur á að innlausnarrétturinn hefði verið fyrir hendi frá árinu 1932 enda hefði stefna löggjafans verið skýr um það að veiðiréttur væri órjúfanlegur hluti fasteignar.

Á fundi nefndarinnar var bent á að innlausnarrétturinn hefði komið inn í lax- og silungsveiðilög árið 1932 sem tímabundið úrræði, síðar sem ótímabundið úrræði en frá árinu 2006 sem tímabundið úrræði á ný.

Það er skilningur nefndarinnar að framangreind breyting á gildistíma innlausnarréttar hafi verið gerð með það í huga að leysa eigendur veiðiréttar undan íþyngjandi áhrifum hans, þó þannig að komið væri til móts við væntingar landeigenda. Þá virðist það hafa verið mat löggjafans að fimm ár nægðu landeigendum til þess að leita leyfis ráðherra til innlausnar. Upplýst var á fundi nefndarinnar að landeigendur að Haffjarðará hefðu hug á að leita innlausnarleyfis en að ákveðin réttaróvissa kynni að vera til staðar sem mögulegt væri að reyna þyrfti á fyrir dómstólum. Er það skilningur nefndarinnar að ekki liggi ljóst fyrir að aðrir en eigendur jarða sem liggja að Haffjarðará hyggist sækja um innlausn veiðiréttar. Bendir nefndin á að skv. 5. mgr. 10. gr. lax- og silungsveiðilaga hafa landeigendur sem hyggja á innlausn möguleika á að krefjast hennar allt til 1. júlí 2011 þannig að það er enn þá tími til stefnu sem ástæða er til að vekja athygli á. Er það álit nefndarinnar, að teknu tilliti til lengdar eftirlifandi gildistíma innlausnarréttar, hins langa líftíma hans og þeirrar stefnu sem Alþingi tók með samþykkt lax- og silungsveiðilaga árið 2006, að ekki hafi komið fram þau knýjandi rök sem nefndin telur nauðsynleg til þess að hún geti orðið við kröfum um framlengingu innlausnarréttarins.

Að öllu þessu framansögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir þetta framhaldsnefndarálit skrifa hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Ólína Þorvarðardóttir, Helgi Hjörvar, Björn Valur Gíslason, Róbert Marshall, Atli Gíslason, Einar K. Guðfinnsson og Sigurður Ingi Jóhannsson.