139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[15:20]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vitnaði til talna sem nýlega eru fengnar úr ranni Landsvirkjunar og byggðar á vísindalegum grunni, að ég held og best veit. Ég nefndi þessar tölur til að tala um þá hagsmuni sem eru í húfi, bæði til nýtingar og verndunar. Það er afskaplega mikilvægt að við leggjum til hliðar og setjum inn í verndarflokk þau svæði sem menn hafa ýmist talað um sem hugsanleg nýtingarsvæði eða ef til vill örugg nýtingarsvæði sem eiga klárlega heima í verndarflokki og velflestir eru sammála um. Þær tölur sem ég hef nefnt hér eru fengnar beint frá fulltrúum Landsvirkjunar og eru byggðar að mínu viti á vísindum þeirra manna sem þar starfa. Eins og ég gat um er nú búið að virkja einar 17 teravattstundir hér á landi og landsvirkjunarmenn telja að innan þeirrar sáttar sem er að nást megi ef til vill tvöfalda þá raforkuframleiðslu. Út frá akademískum sjónarmiðum má ef til vill virkja 94 teravattstundir, þ.e. fimmfalda raforkuframleiðsluna frá því sem nú er. Auðvitað mun enginn fara í slíka raforkuframleiðslu, en ég nefni þessa tölu einungis til að varpa ljósi á þær stærðir sem rifist hefur verið um í þessu efni á undanliðnum árum og vonandi eru að baki.