139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[15:22]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég biðst afsökunar á því hafi ræða mín getað misskilist á þann veg að ég hafi efast um að hv. þingmaður færi rétt með þær tölur sem hann hafði hér uppi. Ég var ekki að efast um þær í sjálfu sér, heldur að biðja menn að fara varlega með orð eins og ágætt skáld sagði, skáld sem við hv. þingmaður höldum væntanlega nokkurn veginn jafnmikið upp á. Afdrif orða geta orðið ýmisleg ef ekki er varlega með þau farið.

Á vísindalegum grundvelli, já. Sjálfsagt eru tölur Landsvirkjunar settar fram á einhvers konar vísindalegum grundvelli, bæði nú og fyrr. Landsvirkjun er ekki nýtt fyrirtæki og forráðamenn hennar hafa haldið fram margs konar tölum á ævi hennar. Vísindin hafa þann ókost að þau eru breytanleg, forsendur þeirra og þar með niðurstöður útreikninga eða umfjöllunar sem gerð er á vísindalegum grunni breytast frá ári til árs vegna þess að heimurinn breytist, sem betur fer. Þar að auki eru niðurstöður þeirra oft umdeilanlegar vegna þess að vísindalegar niðurstöður eru allajafna þannig að þær passa ekki í fyrirsagnir eða einfaldar 15 sekúndur í sjónvarpsfréttum, heldur verður að skoða þær og meta með annars konar hætti.

Verið getur að Landsvirkjun reikni með algjörum hámarkskostum í þessu. Við vitum til dæmis ekki enn þá hvað djúpborunin gefur okkur. Það getur vel verið að það aukist mjög. Landsvirkjun hefur líka talað um vindorku og menn tala um sjávarfallaorku þannig að þessar tölur geta orðið afar háar. Við verðum líka að reikna með því að umhverfiskröfur aukist. Ýmsir þeir kostir sem taldir voru ágætir fyrir 20 eða 30 árum koma ekki til greina í dag. Reyndar (Forseti hringir.) yrðu þær virkjanir sem voru stundaðar hér fyrr á öldinni slegnar í dag út af borðinu (Forseti hringir.) undir eins.