139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[15:24]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allt er vissulega breytingum háð og allt er að breytast í tímans rás. Afstaða manna til umhverfismála breytist, afstaða manna til nýtingarmála í raforkuframleiðslu sömuleiðis. Vísindin eru að breytast, rómantíkin líka. Rómantíkin breytist með árunum og það lýtur að sýn manna á umhverfið. Ég veit ekki betur en að ein vinsælasta, ef ekki sú vinsælasta, náttúruparadís landsmanna sé uppistöðulón virkjunar hér á Íslandi. Það hefði enginn getað séð það fyrir sér fyrir 50 árum að einn vinsælasti ferðamannastaður landsins yrði uppistöðulón virkjunar sem Bláa lónið er. Enginn hefði fyrir nokkrum árum getað séð fyrir sér að tvöfalt fleiri ferðamenn legðu leið sína upp að Kárahnjúkum en verið hefur eftir að virkjun var þar sett á laggirnar. Ég nefni þetta sem dæmi um að allt er breytingum undirorpið og sömuleiðis hitt að nú er svo komið að sú þjónusta sem menn horfa hvað mest til í ranni umhverfismála, ferðaþjónusta, er sú atvinnugrein sem líklega mengar mest hér í heimi. Auðvitað er allt breytingum undirorpið.