139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við fórum fram á það að þetta mál yrði skoðað í hv. viðskiptanefnd á milli funda sökum þess að okkur fannst þau svör sem við fengum frá hv. þingmönnum meiri hlutans í umræðunni hér áður varðandi breytingartillögur okkar vera þess eðlis að það væri þess virði að fara yfir málið. Breytingartillögurnar eru einfaldar. Þær hljóða svo, með leyfi forseta:

„1. Á undan 1. gr. komi ný grein, 1. gr., svohljóðandi:

Orðin „sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi“ í 2. gr. laganna falla brott.

2. Á eftir 2. gr. komi ný grein, 4. gr., svohljóðandi:

Orðin „ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi“ í 2. gr. laganna falla brott.

3. Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun er heimilt að eiga áfram þær eignir sem keyptar hafa verið á grundvelli þeirra heimilda sem felldar eru brott í 1. og 4. gr. Við kaup á eign í þeirra stað skal farið eftir ákvæðum gildandi laga um fjárfestingarheimildir fyrirtækjanna.“

Bara til útskýringar gengur þetta út á að setja í lög að þessi fyrirtæki snúi sér að kjarnastarfsemi sinni. Maður skyldi ætla að góð sátt gæti orðið um þær breytingar. Ég veit ekki hvort ég þarf að rökstyðja það eitthvað sérstaklega en úr því að við erum hér að ræða þessi mál er ekki úr vegi að fara lítillega yfir það hvaða afleiðingar það hefur haft að breyta þessum lögum í þá veru sem gert var á sínum tíma. Eins og lögin hljóma nú er þessum fyrirtækjum heimilt að eiga, held ég, nokkurn veginn allt. Ég held að þar sé ekkert hægt að undanskilja. Þessi fyrirtæki eru auðvitað í einokunarstöðu og fákeppni, það fer eftir því um hvaða markað er að ræða, en svo sannarlega í einokunarstöðu á ákveðnum mörkuðum. Þótt ekki væri nema bara af þeirri ástæðu er ekki skynsamlegt að hafa heimildir til þess að geta farið inn á hvaða markaði sem er. Í ofanálag hefur þetta gefið einstaklega slæma raun. Í tilfelli Orkuveitu Reykjavíkur sem er að vísu kannski versta dæmið fór R-listinn á sínum tíma í allra handa starfsemi sem tengist ekki hefðbundinni kjarnastarfsemi félagsins. Það var allt frá smáum hlutum eins og risarækjueldi og ljósmyndabönkum yfir í stórar fjárfestingar á sviði gagnaflutninga, þó ekki bara gagnaflutninga heldur líka fjarskipta, samanber TETRA-kerfið. Einnig voru hugmyndir sem var afstýrt að stærstum hluta um að fara í sumarbústaðastarfsemi, þ.e. uppi voru hugmyndir hjá R-listanum um að setja fjármuni félagsins í að byggja upp sumarbústaðabyggð sem átti síðan að selja fólki og fara þá í samkeppni á því sviði.

Virðulegi forseti. Auðvitað veit ég ekki hvað hv. þingmenn meiri hlutans gera, það kemur í ljós við atkvæðagreiðsluna. Svo það sé sagt voru fulltrúar eigenda sem komu fyrir hv. viðskiptanefnd spurðir út í þetta atriði og þeir sögðu skýrt að ekki stæði annað til en að með vinnunni varðandi eigendastefnu Orkuveitunnar væri algjör vilji til að fara aftur inn í og einbeita sér að kjarnastarfsemi. Menn hefðu betur haldið sig við það. Staða fyrirtækisins væri nú mun betri ef það hefði verið gert.

Það er auðvitað allt sem mælir með því að við breytum lögunum með þessum hætti. Þetta er orkufyrirtæki og þau eru misjöfn. Þau eru flestöll í eigu opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Reynslan hefur kennt okkur að það sé skynsamlegt, eðlilegt og réttlátt að þessi fyrirtæki einbeiti sér að kjarnastarfsemi en geti ekki farið í hvaða starfsemi sem er.

Ég vek athygli á því að það er nokkurn veginn ekkert útilokað í þessu samhengi. Fyrirtækin gætu farið í bankastarfsemi þess vegna, þótt ég voni að ekki séu uppi neinar slíkar áætlanir. Þótt það sé kannski lítið um áætlanir um að fara í alveg óskyldan rekstur núna eru lög ekki gerð fyrir nokkra daga, þau eiga að standa í ár og áratugi. Það er ekkert útilokað með að það sem hefur gerst geti ekki gerst aftur, jafnvel þó að menn vilji á þessum tímapunkti alls ekki sjá það. Ég vil trúa að það sé almennur vilji fyrir því að orkufyrirtækin verði kjarnastarfsemi og löggjafinn hefur tækifæri til að búa þannig um hnútana að svo verði við atkvæðagreiðslu um þessa breytingartillögu.