139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega mikið ósamræmi í orðum hv. þingmanns. Hann talar um að hann sé efnislega sammála breytingunni. Ef menn eru efnislega sammála henni þá bara samþykkja þeir breytinguna. Hann ber því hins vegar fyrir sig að verið sé að vinna að stefnumörkun og þess vegna eigi menn ekki að fara í að breyta þessu til að fara ekki inn í þá stefnumörkun.

Skemmst er frá því að segja að fulltrúar eigendanna höfðu ekki áhuga á því að þessar breytingar sem meiri hlutinn kynnti, og voru til umsagnar hjá eigendunum, næðu fram að ganga að þessu sinni á meðan á stefnumörkuninni stendur. Ef hv. þingmaður og þeir sem eru í meiri hluta ætla að vera sjálfum sér samkvæmir ættu þeir náttúrlega ekki að fara fram með þetta mál ef þeir eru að fara gegn þessari stefnumótun sem er í gangi.

Þetta er mjög einfalt, þetta snýst um vilja löggjafans til að skapa þessum fyrirtækjum rekstrargrundvöll eða réttara sagt hlutverk. Þetta er eitthvað sem allir þekkja, búið að ræða út og suður í þjóðfélaginu svo áratugum skiptir, og eins og kom fram í máli eigendanna töldu þeir að þetta yrði niðurstaðan, þ.e. að horfið yrði að kjarnastarfseminni, aftur farið í það að Orkuveitan einbeiti sér að kjarnastarfseminni. Ef menn ætla á annað borð að fara að breyta lögunum væri nær að breyta þeim í þá veru sem flestir eru sammála um í stað þess að fara í þær breytingar sem eigendurnir báðu sérstaklega um að beðið yrði með þangað til stefnumótun yrði kláruð.