139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[15:37]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að koma upp aftur til að ítreka það sem ég sagði áðan: Hér erum við einungis að færa fern lög til samræmis við áðurnefnd lög um einkahlutafélög og hlutafélög sem hafa verið samþykkt á Alþingi þar sem við breyttum tveimur þáttum. Við erum að færa þessi lög til samræmis við þær breytingar sem þar voru gerðar. Við erum ekki að fjalla um heildarlög um Orkuveitu Reykjavíkur.

Viðamikil umræða um stöðu, hlutverk og stefnu Orkuveitunnar á eftir að fara fram. Hún á sér stað núna á vettvangi Orkuveitunnar sjálfrar, hjá starfsmönnum og eigendum fyrirtækisins, og fer sína pólitísku leið á vettvangi borgarinnar og svo munu væntanlega koma hér inn drög að frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Orkuveituna. Þá verður allur lagabálkurinn undir og þá geta menn tekið efnislega umræðu um það hvaða stefnu menn telja að Orkuveitan eigi að hafa.

Að mörgu leyti skil ég vel þau sjónarmið sem hv. þingmaður rakti í ræðu sinni um það hvert hlutverk orkufyrirtækjanna okkar ætti að vera til lengri tíma litið. Eiga þau að vera í kjarnastarfsemi sinni eða eiga þau að vera í lúðueldi? Ég get svarað þeirri spurningu fyrir mig en ég tel ekki að við eigum að fara inn í lagabálkinn að svo komnu máli og taka undir þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram heldur einungis að samræma þau lög sem við höfum samþykkt nú þegar við þau lög sem við fjöllum um hér og frumvarpið snýst um.

Við ættum kannski frekar að skoða: Ættum við að breyta fleiri lögum til samræmis hvað snertir kynjakvóta og starfandi stjórnarformann, t.d. þær stjórnir sem eru á vettvangi lífeyrissjóðanna? Ættum við að horfa til þess að skoða lög um lífeyrissjóðina til að velta fyrir okkur kynjakvótum, virðulegi forseti? Eigum við að endurskoða lög um lífeyrissjóðina og koma á kynjakvótum í stjórnum þeirra?