139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur ekki talað sig frá þessu. Þetta er bara þannig að meiri hlutinn kemur með frumvarp, breytingar á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur. Meiri hlutinn getur ekki sagt: Heyrðu, það má bara tala um það sem við viljum tala um, það má ekki tala um neitt annað. Það bara er ekki þannig. (MSch: Það sagði ég ekki.) Hv. þingmaður veit að eigendurnir sögðu: Ekki fara í þessar breytingar sem þið leggið til af því að við viljum skoða þetta betur. Hv. þingmaður er því ekkert að gera neitt fyrir eigendurna ef það er málflutningur hans, það er bara ekki þannig.

Þegar við spurðum fulltrúa eigendanna út í þessa breytingartillögu kom það hins vegar skýrt fram að vilji væri til þess að fara aftur með Orkuveituna í kjarnastarfsemi sína. Ef hann vill vera í anda þess sem eigendurnir segja ætti hann því að samþykkja þessa tillögu sem hann er efnislega sammála. Við erum búin að fara yfir þetta mál í nefndinni, við kölluðum þetta inn sérstaklega milli 2. og 3. umr. til að meiri hlutinn gæti áttað sig á því ef eitthvað væri óljóst. Okkur er ekkert að vanbúnaði, nákvæmlega ekki neitt, og ekki hafa komið nein rök gegn þessum tillögum, nákvæmlega engin.

Það er alveg furðulegt ef það verður niðurstaðan hér á morgun að meiri hlutinn muni ekki greiða atkvæði með þessum breytingartillögum. Það er þá bara skýr afstaða. Menn geta ekki sagt að þeir hafi ekki haft tíma til að ræða þetta, ekki tíma til að kynna sér þetta, að ekki hafi verið farið nógu vel yfir þetta, því að það var svo sannarlega gert. Það hefur verið tekin umræða hér í þingsalnum, það hefur verið tekin umræða í nefndinni, það er öllum ljóst um hvað er að ræða. Þetta snýst um það hvort menn vilji að Orkuveita Reykjavíkur sinni ákveðinni kjarnastarfsemi eða hvort hún hafi leyfi til að sinna öllu undir sólinni.