139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

almenningsbókasöfn.

580. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997.

Tilgangur frumvarpsins er að eyða lagalegri óvissu um gjaldtöku almenningsbókasafna í landinu og tilefnið er úrskurður umboðsmanns Alþingis þess efnis að reglur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, um innheimtu sekta vegna vanskila á bókum, hafi ekki haft nægilega lagastoð. Það verður reyndar að teljast afar merkilegt að í lögum um almenningsbókasöfn allt til þessa dags hafi aldrei verið heimild til gjaldtöku og er þó saga almenningsbókasafna í landinu ekki stutt. Við stöndum í þessu húsi, Alþingishúsinu, þar sem Landsbókasafn Íslands var til húsa um tíma, allt frá árinu 1881, Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur verið við lýði frá 1919 og ef við förum út fyrir borgarmörkin finnum við meðal annars hið merka Amtsbókasafn á Akureyri sem var stofnað árið 1827.

Hér stöndum við árið 2011 og höfum í höndunum frumvarp sem veitir í fyrsta sinn lagastoð fyrir heimild til almenningsbókasafna að innheimta gjald fyrir þjónustu sína, svo sem útlán, millisafnalán, fjölföldun o.fl. Þá er veitt heimild til innheimtu dagsekta fyrir að nota safnkost fram yfir skilafrest og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda.

Íslensk bókasöfn eru að sjálfsögðu eins og aðrar opinberar stofnanir bundin af þeim réttarreglum sem gilda um starfsemi stjórnvalda. Í því sambandi vill menntamálanefnd árétta að samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttarins eru stjórnvöld bundin af lögum á þann hátt að ákvarðanir þeirra verða annars vegar að eiga sér stoð í lögum og hins vegar mega ákvarðanir þeirra ekki brjóta í bága við lög. Um gjaldtöku opinberra aðila gildir sú meginregla að hún þarf að byggjast á lögum, óháð því hvort um er að ræða skattheimtu eða þjónustugjald. Í þessu tilviki er um að ræða þjónustugjald en það er skilgreint sem greiðsla sem tilteknir hópar einstaklinga og lögaðila verða að greiða hinu opinbera eða öðrum sem kunna að hafa heimild til að taka við henni fyrir það sem kallað hefur verið í lögfræðinni „sérgreint endurgjald“ en það merkir í þessu tilviki ákveðin fyrirframskilgreind þjónusta og er þá greiðslunni ætlað að standa undir kostnaði við þjónustuna að hluta eða öllu leyti.

Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að það munar talsvert um þessar tekjur fyrir mörg bókasöfn. Áætlað hefur verið að þær nemi að meðaltali allt að 10% af rekstrartekjum almenningsbókasafna í landinu, en það er reyndar afar mismunandi eftir söfnum og munu tekjurnar vera umtalsvert lægra hlutfall af rekstrartekjum t.d. Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Ég vil láta þess getið að nefndin hefur fengið um það ábendingu að hnykkja þurfi enn betur á þeirri aðferðafræði sem nota eigi við að tryggja nægilega skýran lagagrundvöll fyrir innheimtu dagsekta, þ.e. út frá hvaða forsendum útreikningar á dagsektum eigi að byggjast. Sömuleiðis megi skýra enn betur hvaða skilningur sé lagður í hugtakið þjónustugjöld samkvæmt þessum lögum og þannig verði fest í gadda og tekið fyrir að hægt verði að taka gjöld fyrir lögbundna þjónustu safnanna sem almennar fjárveitingar úr sameiginlegum sjóðum skattborgaranna eigi að standa undir.

Ég mun því leggja til að lokinni þessari umræðu að frumvarpið fari til frekari meðferðar í hv. menntamálanefnd en jafnframt er rétt að fram komi að nefndin telur að fyrrgreind gjaldtökuheimild leiði ekki til hækkunar á gjaldskrám almenningsbókasafna og var sá skilningur staðfestur í máli þeirra umsagnaraðila sem komu fyrir nefndina.

Það er niðurstaða nefndarinnar fyrir 2. umr. að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálit menntamálanefndar rita sá sem hér stendur, Ásbjörn Óttarsson, Þráinn Bertelsson, Oddný G. Harðardóttir, Þuríður Backman, Íris Róbertsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.

Ég endurtek að ég legg til að að lokinni umræðunni verði frumvarpinu vísað aftur til hv. menntamálanefndar.