139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Það kom berlega í ljós í máli hæstv. ráðherra að hér er fyrst og fremst verið að bregðast við hæstaréttardómi sem féll 18. október 2010 og hæstv. ráðherra fjallaði ítarlega í ræðu sinni um þessi lög sem við erum að ræða um að breyta, þ.e. breytingar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun og að í raun og veru sé nánast verið að fella út greiðslumiðlunarhlutann innan þeirra laga. Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um það því að sá hluti hefur ekki virkað sem skyldi. Ég fagna því sérstaklega að það sé verið að stíga það skref.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það í ræðu sinni og eins kemur það fram í greinargerð með frumvarpinu að það eru í raun og veru tryggari heimtur fyrir Landssamband smábátaeigenda sem fylgja þessu frumvarpi. Samkvæmt frumvarpinu munu þeir sem kaupa aflann, annaðhvort beint eða af fiskmarkaðnum sem selja hann í umboðssölu eða þeir sem flytja hann út ferskan, þá greiða 0,5% til viðkomandi félags með leyfi útgerðarmannsins eða þess sem hefur umráðarétt yfir bátnum. Það þykir mér mjög fínt. Mér finnst í raun að það sem haldið er inni úr greiðslumiðluninni sé eingöngu gert til þess að tryggja að það sé gert með þessum hætti.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Kom ekki til tals að sleppa því bara alveg og hafa þá meiri trú á því að menn sem eru í ákveðnum félagsskap, hvort sem hann er Landssamband smábátaeigenda eða hver hann er, standi bara skil á aðildargjöldum sínum?