139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eins og ég skil frumvarpið geta menn valið hvort þeir láta fiskkaupandann greiða gjaldið fyrir sig eða hvort þeir borga það sjálfir. Mér finnst það vera mjög jákvætt vegna þess að eins og þetta er nú, svo vitlaust sem það er, þurfa menn að borga 8,4% af brúttóveltu fyrirtækjanna í eitthvert púkk. Svo er greitt þar í lífeyrissjóði, í tryggingafélög og þar fram eftir götunum. Það er allt fullt af óskyldum aðilum sem ávaxta og njóta fjármagns þeirra sem afla þess. Það er vonlaus staða.

Ég vil hins vegar gera smá athugasemd við það sem hæstv. ráðherra sagði í andsvörum, ég geri mér fulla grein fyrir því að Landssamband smábátaeigenda vinnur starf sitt eins og til er ætlast af félagsmönnum. Það gera að sjálfsögðu önnur félög líka, hvort heldur LÍÚ eða önnur. Það kemur reyndar fram í greinargerðinni að Landssamband íslenska útvegsmanna hefur bent á það alveg frá 2005 að leggja þetta niður. Ég lít svo á, og ég vil fá það staðfest af hæstv. ráðherra hvort ég skilji það ekki örugglega rétt, að þó að þessi lög taki gildi sé það alveg skýrt að það verður að vera fyrir hendi samþykki þess aðila sem landar fiskinum fyrir því að hann greiði gjald til Landssambands smábátaeigenda. Hann getur líka sleppt því af því að félagsaðildin er frjáls. Ég vil að það komi alveg skýrt fram. Ég held að sé ekki hægt að misskilja það. Ég vil fá það alveg skýrt fram hvort hæstv. ráðherra skilur það ekki nákvæmlega eins og ég.