139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur fram í frumvarpinu að það er svo. Hins vegar vil ég árétta þau sjónarmið mín að við eigum almennt að vera frekar íhaldssöm og halda því vel til haga að félagsskapur hóps hagsmunaaðila eða launþegar hvar sem er eigi að njóta lagalegrar verndar frekar. Landssamband smábátaeigenda, sem hér er nefnt af því þessi breyting snertir sérstaklega starfsemi þeirra, og önnur félög sem vinna á viðlíka vettvangi halda utan um réttindi og skyldur og fjölþætta almannahagsmuni viðkomandi greinar. Við eigum heldur að reyna að stuðla að því að svo sé frekar en leggja áherslu á að allir hafi rétt til að standa utan félaga.

Ég vil árétta að það er persónulegt sjónarmið mitt, en í ljósi þeirra dóma, laga og athugasemda sem fram hafa komið varðandi mál af þessum toga verður að flytja frumvarp sem kveður á um þessar breytingar. Þær kveða á um, eins og hv. þingmaður gat um, að þetta sé fellt út en sé það hins vegar alveg óvefengjanleg, skrifleg ósk viðkomandi og viðkomandi félags að þetta gangi svona fyrir sig er heimilt að hafa það þannig.