139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka sérstaklega undir einn þátt í ræðu hæstv. ráðherra, það varðar það sem hæstv. ráðherra sagði í andsvörum sínum áðan: Við eigum almennt að vera frekar íhaldssöm. Nú vildi ég óska þess að hæstv. ráðherra tileinkaði sér það hugarfar sem oftast. Ég vildi óska þess að hann hefði þetta lífsmottó, sem hann setti svona afdráttarlaust fram í andsvari áðan, í huga nú þegar hann er að stauta yfir nýju lagafrumvarpi um stjórn fiskveiða.

Það frumvarp sem við ræðum hér á sér alllangan aðdraganda eins og kemur raunar fram í athugasemdum sem í því eru raktar. Fyrst vakti umboðsmaður Alþingis á því athygli á árinu 2001 að það fyrirkomulag sem verið hefði við lýði varðandi greiðslumiðlun og skiptaverðmæti innan sjávarútvegsins stangaðist á við stjórnarskrána. Hvaða skoðun sem við höfum á því máli að öðru leyti er ljóst að ekki er hægt að veita neinn afslátt frá því. Sé það þannig að lög stangist á við stjórnarskrána er ekki nema tvennt að gera; breyta stjórnarskránni eða lögunum. Við erum löggjafi. Við förum hins vegar ekki með stjórnarskrárvaldið þannig að þá er eðlilegt að farið sé í að skoða hvernig bregðast eigi við þessari ábendingu ef tilefni er á annað borð til. Orð umboðsmanns eru í sjálfu sér ekki lög, þau eru ábending, álit, og þess vegna var á þeim tíma ákveðið að setja niður hóp fólks úr nokkrum ráðuneytum sem málið varðaði til að fara yfir umrætt álit umboðsmanns, skoða hvort það kynni að vera rétt og reyna að átta sig á því hvernig eðlilegast væri að bregðast við.

Við ræðum hér þann afmarkaða þátt sem snýr að lögunum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og það er það mál sem við höfum til umfjöllunar.

Umrædd nefnd skilaði áliti í árslok 2006 og staðfesti það álit umboðsmanns Alþingis að þessi löggjöf færi á svig við stjórnarskrána. Þess vegna var farið að skoða hvernig eðlilegast væri að setja ákvæði í lög sem tæki þá mið af því að við hefðum löggjöf sem væri að fullu í samræmi við stjórnarskrána. Ég ítreka að það er ekki neinn kostur, enginn valkostur eins og stundum er sagt, í stöðunni að setja löggjöf sem væri nokkurn veginn í samræmi við stjórnarskrána. Við verðum að setja löggjöf sem væri þá í samræmi við stjórnarskrána. Það er verkefni okkar þingmanna. Það er það sem við gerum við upphaf þingferils okkar að undirrita heit að stjórnarskránni. Það þarf í sjálfu sér ekki að ræða það.

Ýmis álitamál komu hins vegar upp. Í fyrsta lagi hvernig slík löggjöf ætti þá að líta út. Í öðru lagi var það heilmikið vandamál að reyna að samræma umrædda ábendingu umboðsmannsins og eftir atvikum nefndarinnar sem ég var að vísa til og reyna að verja að til staðar væru alvöruhagsmunasamtök í sjávarútvegi sem ég er sammála hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að er mikilvægt. Fyrir því eru margvísleg rök. Þó ekki væri annað en að horfa til hagsmuna framkvæmdarvaldsins og Alþingis þá skiptir það líka miklu máli fyrir okkur að geta rætt við heildarsamtök sjómanna, útvegsmanna, smábátaeigenda eða annarra þeirra sem málið varðar.

Í þessu ferli varð það niðurstaða sjómannahreyfingarinnar, ef ég má orða það svo — Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannasambands Íslands, Félags vélstjóra og málmtæknimanna og LÍÚ — að hægt væri að leggja af þetta fyrirkomulag með öllu og innheimta félagsgjöldin til þessara hagsmunasamtaka sjómanna á annan veg en gert er ráð fyrir í þessum lögum. Í raun var ekki mikill ágreiningur um að það fyrirkomulag að innheimta sérstakt gjald af útgerðinni til að borga í lífeyrissjóðina eða í tryggingafélögin væri úrelt. Að vísu voru uppi sjónarmið um að skynsamlegt væri og gott að gera það með einhverjum miðlægum hætti, en ég get í sjálfu sér ekki fallist á það. Það er lítill vandi fyrir þá sem standa í atvinnurekstri og sjálfsögð skylda að þeir standi skil af lífeyrisgreiðslum og síðan líka til lögbundinna trygginga. Það er bara hluti af því að reka fyrirtæki og í sjálfu sér þarf ekki mikil afskipti ríkisvaldsins til að tryggja að þeir sem gera út borgi lögbundnar tryggingar eða borgi í lífeyrissjóð eins og lög gera ráð fyrir.

Stóra vandamálið var að finna aðferð til að tryggja að við værum ekki að veikja hagsmunasamtökin þannig að þau stæðu nánast óvíg eftir. Það var verkefnið sem menn stóðu frammi fyrir. Eftir stóð þá, þegar sjómannasamtökin og LÍÚ höfðu komist að þeirri niðurstöðu að þeirra vegna þyrfti ekki að hafa þessa löggjöf, að út af fyrir sig þurfti að takast á við þetta verkefni sem sneri að smábátasjómönnunum. Það er það sem ég hygg að hafi verið verkefni sem menn voru að glíma við og afraksturinn er umrætt frumvarp.

Í sjálfu sér má velta aðferðafræðinni fyrir sér eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi áðan. Ég vil líka árétta þær spurningar sem fram hafa komið. Nú er gert ráð fyrir því, eins og hæstv. ráðherra segir, að þetta sé valkvætt. Það er þá þannig að framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur halda eftir ákveðnu hlutfalli af aflaverðmæti og greiða til hagsmunasamtaka útvegsmanna, þ.e. Landssambands smábátaeigenda eða annars sambærilegs félags, þ.e. hagsmunasamtaka báta sem eru undir útgerðum sem gera út báta undir 10 lestum og krókaaflamarksbátum. Það vekur athygli í þessu máli að um er að ræða mjög sértæka löggjöf. Hún tekur eingöngu til þessa útgerðarflokks.

Ég hef undir höndum bréf sem Landssamband íslenskra útvegsmanna og Sjómannasamtökin, þ.e. Félag vélstjóra og málmiðnaðarmanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasambandið, auk Samtaka atvinnulífsins, skrifuðu hæstv. ráðherra í byrjun þessa árs, 26. janúar sl., þar sem þeir finna að ýmsu í sambandi við undirbúning málsins og eru ósammála þeirri nálgun sem var í frumvarpinu sem hafði verið kynnt þeim á því stigi málsins. Þeir segja hins vegar líka sem svo, það má kannski segja að það sé ósk þeirra til þrautavara eða vara, með leyfi virðulegs forseta:

„Verði ekki fallist á það“ — þ.e. verði ekki einfaldlega fallist á að fella burtu þessa umræddu grein frumvarpslaganna — „er þess farið á leit að umrædd 3. gr.“ — sem hér er þá væntanlega orðin 2. gr. — „nái með sama hætti til skyldu fiskkaupenda og þeirra sem taka sjávarafurðir í umboðssölu til að greiða hlutfall af samanlögðu hráefnisverði þess afla sem þeir taka við inn á reikninga Landssambands íslenskra útvegsmanna, VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Farmanna- og fiskimannasambandsins og Sjómannasambandsins.“

Nú vaknar þessi spurning: Úr því á annað borð er farið inn á þær leiðir að búa til þetta valkvæða kerfi, sem gert er ráð fyrir að nái eingöngu til báta sem eru undir 10 tonnum eða 10 lestum og krókaaflamarksbáta, hvers vegna var þessi leið ekki farin almennt, að opna þessa heimild almennt þannig að menn gætu þá farið þessa leið gagnvart hagsmunasamtökum sjómanna og öðrum hagsmunasamtökum útvegsmanna? Það má segja sem svo að kannski hafi ekki verið þörf á því vegna þess að það er ekki krafa eða ósk frá þessum hagsmunasamtökum að þetta fyrirkomulag, hálfþvingaða fyrirkomulag, sé til staðar. En ég vil samt sem áður vekja athygli á því að það er dálítið sérkennilegt að búa til löggjöf sem hefur þetta í för með sér, en nær eingöngu til hluta útgerðanna. Af hverju er löggjöfin bara ekki höfð almennari?

Í öðru lagi vil ég segja þetta: Það hefur ýmislegt gerst í þessari umræðu og engin spurning að kröfur í lögfræðilegri túlkun, t.d. á hugmyndinni um félagafrelsi, hafa orðið meiri og segja má að túlkunin hafi orðið þrengri. Á sínum tíma féll hæstaréttardómur sem dæmdi svokallað iðnaðarmálagjald ógilt, en síðan var þessu máli vísað til Evrópudómstóls sem komst að þeirri niðurstöðu að þetta gjald stæðist ekki, ef ég man þetta rétt. Túlkunin hefur með öðrum orðum orðið þrengri.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað af hálfu ráðuneytisins eða lögfræðilegra ráðgjafa þess hvort sú aðferðafræði sem hér er notuð sé í samræmi við þá þröngu túlkun sem orðið hefur ofan á núna upp á síðkastið. Það er enginn vafi á því að ef við hefðum skoðað þetta fyrir 10 árum hefði varla þurft að ræða þetta, þessi túlkun hefði örugglega verið í samræmi við það sem þá var efst á baugi. En spurningin er hvort þetta standist miðað við þá þröngu túlkun sem við þekkjum núna.

Í þriðja lagi langar mig að víkja að því sem kom fram í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og í orðaskiptum hans og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hér er kveðið á um það þegar framleiðendur sjávarafurða og aðrir fiskkaupendur taka þessi 0,5% af samanlögðu verðmæti afla og ráðstafa því til Landssambands smábátaeigenda eða annarra hagsmunasamtaka. Setjum dæmið upp.

Ímyndum okkur að einhver útgerðarmaður smábáts undir 10 tonnum eða krókaaflamarksbáts kjósi einfaldlega að gera þetta ekkert og skrifi ekki undir neina beiðni um að þessi 0,5% af aflaverðmætinu séu tekin til þessarar ráðstöfunar. Þá vil ég spyrja: Með hvaða hætti gerist það? Hvað gerist þá? Er það þá þannig að viðkomandi er ekki lengur félagi í einhverjum af þessum félögum eða samtökum? Ef svo er, gerir hann þá einfaldlega beint og milliliðalaust upp við þessi félög og samtök án atbeina þessa sjóðs?

Það er mikilvægt fyrir okkur að átta okkur þessu. Ég velti því líka fyrir mér hvernig þetta muni gerast í praktíkinni. Er það þá þannig að viðkomandi hagsmunasamtök leita til útvegsmanna sem hafa starfað innan þeirra vébanda og óska eftir því að þeir fari fram á slíkt og þá við hvern? Er það þá við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem slík ósk er borin upp? Eða hvernig gerist þetta?

Það má kannski segja að hluta af þessum spurningum fáum við svarað þegar við förum yfir málið í hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Engu að síður eru þetta spurningar sem vakna og væri gott ef hæstv. ráðherra gæti á þessu stigi málsins farið einhverjum orðum um þetta.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mikið fleiri orð um frumvarpið. Ég skil vel aðdraganda þess og átta mig á því hvernig það er tilkomið og ég hef farið yfir það í örstuttu máli hver bakgrunnur málsins er. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt í siðaðra manna samfélögum að við höfum bærilega öflug hagsmunasamtök. Hæstv. forsætisráðherra opnar helst aldrei munninn um sjávarútveginn öðruvísi en að uppnefna tiltekin hagsmunasamtök, ég tek ekki undir slíkt. Ég hef ekki orðið var við að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi tileinkað sér þann leiða sið hæstv. forsætisráðherra og ég er sammála honum um að það er óþarfi að vera með slíka fyrirlitningu í garð hagsmunasamtaka. Ég skil því vel að menn vilji ganga þannig frá málum að hagsmunasamtökin séu bærilega öflug og séu til staðar. Við þurfum að nálgast lagasetninguna í ljósi þess.

Fyrsta spurningin sem við verðum engu að síður að svara, það er stóra spurningin sem við hljótum að fara mjög rækilega yfir í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, og kalla til okkar sérfræðinga á því sviði, er þessi: Erum við örugglega að róa fyrir allar víkur, svo að ég noti nú orðalag hæstv. utanríkisráðherra? Er það örugglega tryggt að með þessu uppfyllum við 74. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um félagafrelsi? Það er það sem við þurfum að gera, jafnframt því að reyna að átta okkur á því hvernig þessi löggjöf á að vera.

Ég ítreka að mér finnst nokkuð sérkennilegt að löggjöfin sé sett fram á þann hátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Við fyrstu sýn tel ég eðlilegt að skoða það mjög vel að verði þessi leið farin á annað borð, þessi valkvæða leið, sé heimildin höfð víðtækari og nái þá til fleiri útgerðarflokka.