139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum afnám gjalda sem lögð voru á skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegs. Tilefnið er væntanlega dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um iðnaðarmálagjaldið sem hann sagði brjóta stjórnarskrá og mannréttindi. Ég man þá tíð hjá Alþingi að nokkrir þingmenn höfðu mikinn áhuga á mannréttindum. Ég man sérstaklega eftir því að þegar dómur féll um öryrkjamálið og annar um kvótamálið komu menn hingað í löngum bunum og höfðu miklar skoðanir á því að ekki mætti brjóta mannréttindi. Að sjálfsögðu ekki, við höfum svarið eið að stjórnarskránni og þessi ákvæði standa þar.

Nú bregður svo við að þó að Mannréttindadómstóll Evrópu sem ætti nú að hafa eitthvert vit á mannréttindum kveði upp úrskurð er það með miklum semingi sem hæstv. ríkisvaldið tekur á sig rögg og gerir eitthvað. Iðnaðarmálagjaldið var ekki einu sinni lagt af eins og hefði verið eðlilegt að gera í hvelli, nei, það var látið deyja út og það með miklum semingi.

Það er sama með þetta hérna. Ef maður les athugasemdir við lagafrumvarpið sér maður að það að vekja upp mannréttindi tekur heilan áratug. Umboðsmaður Alþingis lét í té álit 12. apríl 2002. Það eru komin rúm níu ár. Meðgöngutíminn er ekki níu mánuðir, hann er níu ár. Það er tíminn sem tekur að hræra í þessum málum enda er um að ræða gífurlega hagsmuni, frú forseti. Það er voðalega auðvelt að láta ríkið innheimta fyrir sig félagsgjöld. Það er auðveldasta mál í heimi. Þá er þetta orðinn skattur og menn lifa eins og blómi í eggi og í vellystingum upp frá því.

Hér erum við að fjalla um gjald sem var lagt á útgerðir. Lausnin er alveg stórfurðuleg, menn geta lesið sér til um það í lagafrumvarpinu. Það er alveg stórfurðulegt að ef útgerðarmaður óskar þess — hann verður að óska þess — skuli bankastofnanir innheimta gjald. Er ekki nóg, frú forseti, að senda bankanum bréf um að ef þeir óski eftir því að gjald í eitthvert félag sé innheimt? Það þarf ekki að setja sérstök lög um það á Alþingi. Ég get ekki séð það. Það er sem sagt áfram reynt að taka af útgerðarmanninum þessa greiðslu með einhvers konar þvingun. Nú þarf reyndar að samþykkja það, sjálfálagða þvingun.

Það merkilega við þetta fyrirkomulag var að það var ekki ríkið sem innheimti, ekki skattstjórinn, heldur var bankakerfinu í landinu falið að innheimta. Það var dálítið sérstakt.

Við erum búin að stofna til stjórnlagaráðs og þar er verið að setja nýja stjórnarskrá. Ég held að áður en menn fara að búa til nýja stjórnarskrá ættu þeir að reyna að fylgja þeirri gömlu, bara fara eftir henni. Það á eftir að fella niður mörg gjöld. Ég sé að hæstv. innanríkisráðherra situr hér og bíður spenntur eftir að tala um skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélaga. Það kemur næst. Hann gat alveg reiknað út að það kæmi næst. Það er nefnilega skyldugreiðsla opinberra starfsmanna til stéttarfélaga sem eru þá opinber stéttarfélög, stéttarfélög sem ríki semur við og mynda BSRB, sem hæstv. ráðherra var einu sinni formaður fyrir í fjöldamörg ár. Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna skulu opinberir starfsmenn greiða í stéttarfélag, hvort sem þeir vilja vera félagar í því eða ekki. Ríkið semur við það stéttarfélag. Nú skulum við hugsa okkur að það sé fátækt fólk sem BSRB hefur ekki samið nægilega vel fyrir eins og á við um flestallar umönnunarstéttir landsins sem eru með alveg óskaplega lág laun, sumar hverjar, og hugsa okkur að þetta fátæka fólk í þrengingum núverandi daga hugsi sér til hreyfings og vilji eins og í árdaga stéttabaráttunnar stofna stéttarfélag. Tökum bara lítinn leikskóla. Þar er fólk með lág laun og það vill fara í stéttabaráttu. Það stofnar stéttarfélag, ekkert bannar stofnun stéttarfélaga. Hvað gerist, frú forseti? Það gerist akkúrat ekki neitt vegna þess að sveitarfélagið neitar að semja við stéttarfélagið á grundvelli þessara laga og segir: Við semjum við opinbera stéttarfélagið sem annast um kjör þeirra sem vinna á leikskólum. Þið skuluð bara sætta ykkur við lágu, góðu kjörin áfram. Verið ekkert að fara upp á dekk og stofna stéttarfélög eins og í árdaga stéttabaráttunnar. Þeir eru nefnilega liðnir, árdagar stéttabaráttunnar, hjá opinberum starfsmönnum. Þeir geta ekki myndað stéttarfélög.

Þetta hefur verið svona ár eftir ár og ég er búinn að flytja um þetta frumvarp aftur og aftur. Það hefur alltaf sofnað í nefnd á Alþingi. Virðingin fyrir stjórnarskránni er ekki meiri en svo, og mannréttindum líka. Þetta er mannréttindabrot eins og Mannréttindadómstóll Evrópu komst að raun um.

Það eru fjöldamörg önnur gjöld sem ég hef margoft nefnt. Hér er eitt í höfn sem betur fer, þetta gengur hægt og rólega. Það virðist alltaf þurfa dómsúrskurði og því um líkt til að menn sjái að sér. Búnaðargjaldið er eitt af þessum gjöldum, fiskiræktargjaldið líka og ýmislegt fleira mætti telja til. Ég hygg að STEF-gjöldin séu líka inni í þessu ef menn fara að skoða það nákvæmlega. Ég hef reyndar ekki skoðað nýjustu útgáfuna, ég held að menn hafi lagað það eitthvað eftir gagnrýni sem kom fram.

Ég held að menn ættu að taka á honum stóra sínum og afnema öll þessi gjöld, afnema 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það er afskaplega einfalt. Ég hef lagt fram svona frumvarp en býð mönnum höfundarréttinn að því, ekki spurning, menn mega bara taka það og samþykkja það. Ég reikna með að opinberir starfsmenn vilji borga í stéttarfélögin sín og muni gera það áfram. Ég reikna með því. Ég reikna með að það hafi eitthvert gildi fyrir þá að vera í stéttarfélagi.

Það er mjög athyglisvert sem kemur hérna fram í greinargerðinni um að Landssamband smábátaeigenda leggur áherslu á að það muni ekki geta starfað. Hvað þýðir það? Vilja þá smábátaeigendur ekki vera í landssambandinu? Sjá þeir sér engan hag í því að einhver berjist fyrir hagsmunum þeirra? Ég skil þetta ekki. Auðvitað vilja menn vera áfram í félagi smábátaeigenda sem berst fyrir hag þeirra með oddi og egg og hefur staðið sig mjög vel í því.

Ég hygg að það eigi ekki að vera þörf á að lagaskylda félagsgjöld inn í stéttarfélög eða hagsmunafélög. Þess vegna er nefnilega sett inn í stjórnarskrána að það sé félagafrelsi. Menn eiga ekki að þurfa að ganga í einhver félög sem eru hagsmunafélög sem eiga að berjast fyrir hagsmunum þeirra. Þeir eiga að vera þar af fúsum og frjálsum vilja.

Ég býst við að það séu að myndast fyrstu steinarnir í skriðunni sem er að falla þar sem mannréttindin eru virt. Í þingheimi eru margir sem binda miklar vonir við stjórnlagaráðið og ég legg til að þeir fari eftir stjórnarskránni. Þingmenn hafa svarið eið að henni. Ég legg til að menn fari að framkvæma það sem stendur í henni, virða mannréttindi og félagafrelsið. Þó að einn og einn félagsmaður í BSRB hætti að borga þangað inn er skaðinn lítill. Einu sinni átti ég að borga í það félag og neitaði. Það var aldrei látið reyna á það, ég held að ég hafi aldrei borgað félagsgjald á ævinni. BSRB samdi ekki vel fyrir mig því að ég var með mjög léleg laun sem leiðbeinandi þótt ég væri með doktorspróf í stærðfræði. Ég var leiðbeinandi af því að ég var ekki með kennsluréttindi. Í kjölfarið var ég með léleg lífeyrisréttindi. Þetta bar allt að sama brunni.

Ég styð þetta frumvarp eindregið nema ég legg til að hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar skoði hvort ekki megi strika út 2. mgr. líka þannig að menn geti bara treyst því að þeir sem vilja vera í þessum samtökum hringi í bankann sinn og biðji hann að taka þessa prósentu af veltunni, 0,5% af sameiginlegum verðmætum. Þá er málið leyst og við þurfum enga lagasetningu.