139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þess umræðu mikið. Í stjórnmálafræði er stundum talað um teoríu og praxís. Þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er mikill teoríteker þegar kemur að mannréttindum og verkalýðshreyfingunni. Ég minnist andlegs, pólitísks skyldmennis hans sem sat við stjórnvölinn í Bretlandi undir lok 8. áratugarins sem lét ekki sitja við það eitt að fylgja teoríunni heldur setti teoríuna í praxís. Hún heitir Margrét Thatcher og var stundum kölluð „járnfrúin breska“ því að hún þótti mjög harðdræg. Þegar hún settist á valdastól í Bretlandi sögðu ráðgjafar hennar, nýfrjálshyggjumennirnir, að fyrsti einokunarhringurinn sem hún ætti að freista að brjóta niður væri verkalýðshreyfingin, vegna þess að það kynni ekki góðri lukku að stýra þegar verkafólk byndist samtökum um að verja kaup og kjör, það væri óþolandi einokun. Hún hófst einmitt handa við þetta verkefni, að brjóta verkalýðshreyfinguna niður og beita sér gegn samtakamætti launafólks. Það var meðal annars gert með því að skerða öll réttindi verkalýðsheyfingarinnar, þar á meðal allt sem sneri að aðild fólks að verkalýðsfélögunum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur viljað innleiða svipað hér og þessi ræða sem hann flutti þinginu áðan er ekki ný af nálinni. Hann hefur flutt hana allar götur með reglulegu millibili frá því að hann settist á þing árið 1995. Vandinn er bara sá að þótt lagt sé upp í þessa för í mannréttindabaráttu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal segist gera, hefur reyndin ævinlega orðið sú að mannréttindin hafa snúist upp í andhverfu sína. Það hefur gerst í Bretlandi, sérstaklega á atvinnuleysistímum. Þá hefur atvinnurekandinn sagt sem svo við verkamanninn sem vill fá vinnu: Já, þú skalt fá vinnu í mínu fyrirtæki en ég set þó eitt skilyrði, að þú sért ekki í verkalýðsfélagi, að þú bindist ekki samtökum við annað launafólk inni á vinnustaðnum.

Þannig gerðist það að mannréttindabaráttan, sem kann að hafa verið í hugum einhverra, snerist upp í andhverfu sína. Það er á þessum forsendum sem ég hef jafnan kvatt mér hljóðs þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur byrjað að kyrja þennan frjálshyggjusöng. Ég vil gjarnan halda þessum rökstuðningi mínum til haga og mér þótti ástæða til eftir að hann fór nokkrum orðum um réttarstöðu opinberra starfsmanna og launafólks á Íslandi.