139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[17:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún dregur fram þætti sem eru gott veganesti fyrir hv. sjávarútvegsnefnd til að vinna úr, eins og komið hefur fram.

Varðandi orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um hverja er verið að hugsa um vil ég benda á að það er fjöldi einyrkja í atvinnurekstri sem horft er til þar sem oft fara saman bæði persónuleg réttindi og tryggingar og hins vegar réttindi atvinnuvegar eða fyrirtækisins. Það er fyrst og fremst verið að horfa til slíkra aðstæðna. Í stærri fyrirtækjum hefur launafólk ákveðin réttindi í gegnum ráðningarsamninga sína og er ekki með sama hætti nauðsynlegt að það komi hér inn.

Ég vil draga það fram að við erum með einyrkja í sjávarútvegi og reyndar í fleiri atvinnugreinum líka. Við viljum standa vörð um möguleika einyrkjans í útgerð og ég held að við þurfum að huga að þeim þætti sérstaklega þegar við horfum til lagaumgjarðar sjávarútvegsins, að það sé ákveðin hvatning, stuðningur og utanumhald um einyrkjana í útgerð.

Það vildi ég nefna en ég treysti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vel til að fara yfir málið og þau álitaefni sem þar geta verið uppi og að málið fái farsæla afgreiðslu í þinginu. Ég þakka fyrir góða umræðu.