139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[17:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að menn standi vörð um og styðji við bak einyrkja í sjávarútvegi. Ég vildi að fleiri hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn tækju sér til fyrirmyndar það sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerir hér því að það er ekki alltaf það sama sem menn segja og það sem þeir gera. Allar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar síðan hún tók við hafa stuðlað að því að murka lífið úr einyrkjum. Það eru bara staðreyndir málsins, því miður, þannig að það er ekki nóg að segja fallegar setningar í ræðustól og standa svo ekki við fögru orðin annars staðar. En það er því miður staðreyndin.

Mig langar aðeins að bregðast við því sem hæstv. ráðherra sagði sem var hálfgert andsvar við ræðu minni í sambandi við einyrkjana og tryggingarnar. Ég sé ekkert samasemmerki á milli þess að það þurfi að setja þessa löggjöf með þessum hætti til að koma til móts við það sjónarmið vegna þess að nú er búið að innleiða lögskráningu á bátum undir 12 tonnum. Það er búið að taka á þessu máli, Landssamband smábátaeigenda beitti sér fyrir því að það væri gert þannig að áður en menn fengu haffærisskírteini var nauðsynlegt að leggja fram staðfestingu á því að maður væri með áhöfn og bát tryggð. Það var því í raun þegar búið að bregðast við þeim vanda sem var fyrir mjög löngu síðan. Það er mjög langt síðan Landssamband smábátaeigenda gerði þetta og Siglingastofnun líka til að koma í veg fyrir þær hörmungar sem gætu fylgt því að menn væru ótryggðir úti á sjó.

Það er engin nauðsyn að setja það inn þessi lög svo menn standi ekki höllum fæti gagnvart tryggingum því að það er þegar búið að bregðast við því.