139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli eins þingmanns áðan að biðin eftir því að fá frumvarp til breyttra barnalaga inn í þingið hefur verið dálítið löng en nú er það loksins komið, skulum við segja. Ég tel fulla ástæðu til að rekja aðeins aðdragandann að frumvarpinu, að minnsta kosti eins og hann hefur birst mér. Ég hef fylgst dálítið með þessu máli, það hefur ríkulega verið á mínu áhugasviði sem þingmanns að skoða barnalögin og ýmsa meinbugi sem ég tel vera á þeim. Ég hef sjálfur verið að dunda mér við að smíða frumvarp til breytinga á barnalögum en talið rétt að bíða eftir þessu enda var þetta boðað.

Skipuð var nefnd, eins og ég fór yfir áðan í andsvari, á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Hún var frekar fjölmenn og átti að skoða stöðu barna í ólíku fjölskyldumunstri, ef ég man rétt að hafi verið yfirskrift nefndarstarfsins. Svo var þriggja manna nefnd sérfræðinga skipuð á vegum þáverandi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem síðar varð dóms- og mannréttindaráðuneyti og svo innanríkisráðuneyti. Ég lúslas niðurstöðu þeirrar nefndar, ég held að hún hafi komið í fyrra, og var sáttur við margt, ósáttur við annað en hefði þó fagnað því ef þær niðurstöður þeirrar nefndar hefðu komið inn í þingið.

Það er mér mikið íhugunarefni af þessu tilefni og athyglisvert að verða vitni að því hvernig nokkuð afgerandi niðurstöðum beggja þessara nefnda um frekar mikilvæg málefni hvað varðar þennan flokk laga er algerlega umturnað nú þegar hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson leggur fram frumvarp til breytinga á barnalögum.

Veigamesta atriðið sem tekið er út úr niðurstöðum beggja þessara nefnda er heimild fyrir dómara til að dæma sameiginlega forsjá þegar kemur til forsjárdeilna fyrir dómstólum. Það var niðurstaða nefndar innanríkisráðuneytisins um breytingar á barnalögum að veita ætti slíka heimild og það var ágætlega rökstutt. Mér finnst dálítið athyglisvert að sjá að í athugasemdum við frumvarpið sem nú er lagt fram er þessi rökstuðningur nánast óbreyttur og er alveg ágætur fyrir því að taka eigi upp heimild fyrir dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Einungis niðurstöðunni er breytt, ákveðið að taka hana ekki upp út af mjög óljósum rökum sem ég gat ekki fundið almennilega á neinn bitastæðan hátt í athugasemdum við frumvarpið. Þetta hefur yfirbragð einhvers konar geðþóttaákvörðunar þó að leiðinlegt sé að segja það. Hér var farið í ákveðið ferli, farið í yfirgripsmikið starf til að kanna hvað væri rétt í þessum efnum og niðurstaðan var sú að taka ætti upp heimild fyrir dómara á Íslandi til að dæma sameiginlega forsjá og því var breytt sisvona. Ég hlýt að skora á hina háu allsherjarnefnd að taka þetta allt til umfjöllunar frá grunni aftur, skoða rökstuðning nefndanna sem ég nefndi áðan og fara einfaldlega í það að endurskrifa þessa kafla frumvarpsins á grundvelli niðurstöðu nefndanna. Ég vona að það sé vilji til þess innan allsherjarnefndar.

Hvað erum við að tala um? Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Það er bara eitt atriði sem ég ætla að nefna, ég ætla að nefna fleiri atriði á eftir sem ég hef orðið fyrir vonbrigðum með í þessu barnalagafrumvarpi. En hvað er það sem við erum við að tala um varðandi heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá? Það er rétt að aukin áhersla er á sáttameðferð og nefndin lagði líka til að lögð yrði aukin áhersla á það og þá áherslu er að finna í þessu frumvarpi. Ég fagna því og það þarf að gera vel, en engu að síður munu mál lenda fyrir dómstólum þar sem jafnvel fólk sem hefur deilt forsjá yfir barni sínu eða börnum fer með ágreiningsmál fyrir dómstóla og eins og lögin eru núna er það meginreglan og ófrávíkjanleg að þegar dæma á í slíkum málum verður að svipta annað foreldrið forsjá. Ég bið fólk um að íhuga hvað það felur í sér og hversu tilfinningalegt jarðsprengjusvæði það er og ekki til bóta held ég í mjög mörgum tilvikum fyrir börn að þurfa að taka þátt í því ferli að annað foreldrið sé svipt forsjá út af einhverri illskiljanlegri nauðsyn í lögum.

Dómaraheimildin snýst um það í mínum huga að að uppfylltum mjög skýrum skilyrðum megi dómari víkja frá þessari reglu, að hann þurfi ekki að taka forsjána af öðru foreldrinu í tilviki deilumála, þurfi ekki að stíga það skref. Þetta er heimild til dómara til að víkja frá þessari meginreglu vegna þess að hann telur það barninu fyrir bestu. Hann telur það líklegast til að skapa sátt til langs tíma að foreldrarnir, sem þó þannig deila, haldi áfram að deila forsjánni. Ég sé ekki í athugasemdum við frumvarpið og heyrði ekki í máli ráðherrans áðan nein sannfærandi rök fyrir því að þessa heimild ætti ekki að veita. Hins vegar voru nefndirnar tvær sem ég vitnaði til áðan með tiltölulega, að mér fannst, sannfærandi rök fyrir því að það ætti að veita þessa heimild. Það er mér því undrunarefni að hæstv. ráðherra skuli taka þessa heimild út vegna þess að mér finnst hún gríðarlegt réttlætis- og sanngirnismál.

Talað er um það í frumvarpinu að stíga eigi varlega til jarðar í þessum efnum, fara hægt í sakirnar. Við erum á tilfinningalegu jarðsprengjusvæði þar sem eru barnamál, lög um börn, hvaða umgjörð við viljum skapa foreldrum í þeirri viðleitni sinni að ala upp börn í landinu, hvaða réttindi og skyldur foreldrar eigi að axla, hvað sé börnum fyrir bestu sem er lykilatriði. Þetta er jarðsprengjusvæði. Já, við eigum að stíga varlega til jarðar, segi ég. Mér finnst það einhvern veginn ekki hafa yfirbragð þess að stíga varlega til jarðar gagnvart tilfinningum fólks í erfiðum deilumálum að það skuli eiga að vera meginreglan eftir sem áður hjá dómurum að þeir þurfi undantekningarlaust í slíkum deilumálum að svipta annað foreldrið forsjá.

Það hefur gríðarlega mikla tilfinningalega og lagalega þýðingu fyrir foreldri að vera svipt forsjá og sú þýðing held ég að geti haft umtalsverð áhrif líka á líðan barnsins. Ég hvet hv. allsherjarnefnd til að taka þennan þátt í frumvarpinu til gagngerðrar endurskoðunar. Ég hvet raunar allsherjarnefnd til að taka frumvarpið allt til gagngerðrar skoðunar.

Ég ætlaði bara að tala um tvennt í þessari ræðu, annars vegar um dómaraheimildina sem ég er búinn að ræða um í örfáum orðum og hitt varðar tvöfalda búsetu. Ég sagði áðan að nefndin á vegum innanríkisráðuneytisins sem skilaði niðurstöðu sinni, sem mér fannst vönduð að mestu leyti til, hafi þó ekki gengið nógu langt að mínu viti og það verður svo sem að hafa það. Sú nefnd lagði ekki til að tekið yrði upp á Íslandi fyrirkomulag jafnrar búsetu eða tvöfalds lögheimilis eða einhvers ámóta í þeim tilvikum þar sem sýnt þykir að börn búi á tveimur stöðum. Gott og vel. Nefndin á vegum innanríkisráðuneytisins hafði ákveðnar röksemdir fyrir þessu og í frumvarpinu sem hér er lagt fram er ekki lagt til að skilgreint verði eitthvert búsetuform fyrir börn sem felur í sér að barn geti búið á tveimur stöðum eða haft tvöfalt lögheimili og þetta er annar þáttur vonbrigða minna með þetta frumvarp.

Við vitum öll að stór hluti barna, fjölmörg börn búa á tveimur stöðum. Þegar við ræðum hér hvort það eigi að vera mögulegt fyrir börn að búa á tveimur stöðum, hvort við eigum að búa svo um hnútana að börn geti búið á tveimur stöðum erum við að mörgu leyti, svo ég noti líkingamál, að tala um hvort gras geti vaxið eða sólin komið upp. Það er alveg sama að hvaða niðurstöðu við komumst að, grasið mun vaxa, hvort sem við setjum lög um vöxt grass eða ekki mun grasið vaxa og sama er í þessu. Börn búa einfaldlega í svo mörgum tilvikum, upp undir 40% tilvika sá ég í athugasemdum við frumvarpið að rannsókn sýndi á árunum 2006 til 2008 um skilnaðarbörn, upp undir 40% þeirra búa í raun og veru á tveimur stöðum eftir skilnað og önnur könnun sýndi að þau börn sem hafa svona tvískipt búsetuform una hag sínum ágætlega. Svona er samfélagið, svona er þjóðfélagið og þess vegna eru það svo átakanleg vonbrigði fyrir mig, svo ég gerist persónulegur sem uppalandi eins svona barns sem býr á tveimur stöðum, að þurfa að lesa það síendurtekið í frumvarpinu að barn búi bara á einum stað — það foreldri sem barn býr hjá, það foreldri sem barn býr ekki hjá. Þessi greinarmunur er gegnumgangandi í gegnum allan lagabálkinn, í gegnum allt frumvarpið, í gegnum allar athugasemdirnar og ég fæ ekki skilið hann almennilega. Ég fæ ekki skilið af hverju barn sem býr viku hjá öðru foreldri sínu og viku hjá hinu, á herbergi þar, á herbergi hjá báðum foreldrum, það lærir heima hjá báðum, það stundar tómstundir frá báðum heimilum og báðir foreldrar upplifa skyldur sínar mjög ríkar, af hverju getum við ekki bara sagt að barnið búi á þessum tveimur stöðum?

Nú vill svo til að ég er eins og ég sagði búinn að smíða frumvarp um breytingar á afmörkuðum þáttum barnalaga og það var um þetta. Ég prófaði að smíða frumvarp um tvöfalt lögheimili og fékk aðstoð nefndasviðs til þess. Það var ekki svo flókið. Það er fullyrt í athugasemdum við frumvarpið að þetta sé mjög flókið mál að börn geti búið á tveimur stöðum. Það voru örfáir lagabálkar sem þurfti að breyta til að skapa þennan rétt og það er hægt að gera þetta með margvíslegum hætti. Þannig er hægt að veita foreldrum sem kjósa að ala upp börn sín saman eftir skilnað þann rétt að geta valið jafna búsetu eða tvöfalt lögheimili og það verði í öllum tilvikum að vera samkomulagsatriði þeirra á milli. Það feli þá í sér að þau séu algerlega jafnrétthá foreldri gagnvart fjárveitingarvaldinu, gagnvart lögum, gagnvart réttindum og skyldum, gagnvart skólum, gagnvart bankastofnunum eins og ef þau mundu halda áfram að búa saman. Þetta er vel hægt, það er vel hægt að gera þetta. Vilji er allt sem þarf. Það eru nefnilega margir foreldrar sem eftir skilnað taka ákvörðun um að þau ætli ekki að búa saman en þau ætli að halda áfram að ala upp barnið sitt saman. Mér finnst sorglegt ef við náum ekki að búa til barnalög á Íslandi sem styðja þessa viðleitni foreldra, sem hjálpa þessum foreldrum að koma slíku fyrirkomulagi á í lífi sínu. Það getur verið bundið alls konar skilyrðum og það er ekkert mál að búa þetta til.

Þetta frumvarp mætir ekki þjóðfélaginu eins og ég upplifi það. Ég held að þetta sé viðleitni til að setja lög um hvernig grasið eigi að vaxa en við vitum öll að grasið vex bara eins og það vex, ef menn skilja þessa líkingu. Við verðum að aðlaga löggjöfina að samfélaginu þannig að það mæti þörfum fólks, þannig að fólk upplifi að þessi lög séu á einhvern hátt um það og réttindi og skyldur þess en ekki eitthvert þjóðfélag sem við búum ekki í.