139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í umræðum í þingsal í síðustu viku var vikið að störfum sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins. Því miður gafst mér ekki kostur á að taka þátt í þeirri umræðu en ýmislegt sem þar kom fram gefur mér hins vegar tilefni til að koma nokkrum grundvallaratriðum á framfæri og þar með leiðrétta nokkrar rangfærslur sem hafðar voru uppi í umræðunni.

Hin sameiginlega þingmannanefnd Alþingis og Evrópuþingsins var sett á laggirnar í október síðastliðnum í kjölfar þess að formlegar aðildarviðræður hófust á grundvelli ákvörðunar meiri hluta Alþingis. Hlutverk nefndarinnar er að veita stjórnvöldum bæði á Íslandi og í Evrópusambandinu þingræðislegt aðhald, fylgjast með gangi aðildarviðræðna og koma sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld eftir því sem tilefni er til. Fundir nefndarinnar eru opnir þvert á það sem haldið var fram í þingsal í síðustu viku. Þeir eru auglýstir á vef Alþingis og sameiginlega þingmannanefndin er með sérstaka síðu á vef Alþingis þar sem starfsreglur, ályktanir og fundarfrásagnir eru birtar auk almennra upplýsinga um hlutverk, starfshætti og skipan nefndarinnar.

Samkvæmt starfsreglum þingmannanefndarinnar sem forsætisnefnd Alþingis samþykkti getur nefndin samþykkt ályktanir en til þess þarf meiri hluti nefndarmanna frá hvoru þingi um sig að styðja þær. Sérstök ályktun var samþykkt á stórfundi nefndarinnar í október síðastliðnum. Fundur sameiginlegu þingmannanefndarinnar var haldin í apríllok. Í byrjun apríl var hins vegar fundað í Íslandsdeild sameiginlegu þingmannanefndarinnar. Þar voru lögð fram drög að ályktun sem unnin höfðu verið að frumkvæði þingmanna í Evrópuþinginu. Sem formaður Íslandsdeildarinnar gerði ég margvíslegar athugasemdir við þau drög en aðrir fulltrúar í nefndinni voru beðnir að koma athugasemdum og breytingartillögum á framfæri innan tveggja vikna. Engar slíkar komu fram af hálfu íslensku fulltrúanna.

Nokkrum klukkustundum áður en fundurinn hófst bárust mér hins vegar athugasemdir frá tveimur íslenskum fulltrúum í nefndinni en frestur til breytingartillagna var þá löngu útrunninn. Einnig bárust breytingartillögur frá Evrópuþingsfulltrúunum en þær voru á skjön við aðrar fram komnar breytingartillögur. Varð því niðurstaða mín og formanns Evrópuþingshluta nefndarinnar að leggja til að nefndin ályktaði ekki að þessu sinni.

Auðvitað má reyna að gera ferli málsins tortryggilegt en (Forseti hringir.) fyrst og fremst þurfa þingmenn að slípa vinnubrögð sín og bæta. Þinglegt eftirlit með aðildarviðræðum við ESB er mikilvægt tæki sem þingmenn eiga að nota á uppbyggilegan hátt og til frjórra skoðanaskipta.