139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Enginn þarf að vera undrandi á því þó að stjórnarandstaðan hafi einhverjar efasemdir um þær yfirlýsingar sem stjórnvöld hafa gefið í aðdraganda kjarasamninga og í kjölfar þeirra. Ekki þarf annað en að rifja upp efndir stjórnvalda á stöðugleikasáttmálanum margfræga til að átta sig á því að fullt efni er til að hafa varann á og efast um að stjórnvöld muni standa við sinn hluta.

En ég ætla að ræða sjávarútvegsmálin við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, varaformann sjávarútvegsnefndar. Nú hafa strandveiðar farið af stað á þessu vori, þessar ólympísku veiðar sem eru í rauninni ekkert annað en kappveiðar um ákveðið magn af fiski. Í fyrsta lagi ber svo við að fækkað hefur í bátaflotanum sem tekur þátt. Það sýnir okkur að þetta er ekki eins eftirsóknarvert og reiknað var með og sú augljóslega hagkvæmni og arðsemi sem talað var um að ætti að vera af þessu er ekki til staðar.

Það sem gerðist á fiskmörkuðum þá viku sem fullar strandveiðar voru í gangi var að verð á þorski á mörkuðum fór úr 370 kr. kílóið niður í 270 kr. Það eru hreinar afleiðingar þessara ólympísku veiða þar sem kappið er ekki með neinni forsjá og þannig skapaðist kaupendamarkaður. Sjómenn og útgerðarmenn höfðu lítið upp úr krafsinu og þjóðin náttúrlega þar með enn minna líka. Við bentum á þetta, stjórnarandstöðuþingmenn, á sínum tíma að strandveiðifrumvarpið væri sjávarútveginum ekki til framdráttar.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur sett fram hugmyndir um að frjálsar strandveiðar skuli vera allt árið og við sjáum þá afleiðingar þess. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hvort hún sitji enn við sinn keip og hvort hún endurmeti ekki afstöðu sína gagnvart þessum þætti sjávarútvegs í ljósi þeirra staðreynda sem nú eru komnar fram.