139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

störf þingsins.

[14:29]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og allt sem hún sagði áðan. Það er nú svo og hefur verið um nokkurn tíma að það er alveg sama hvar við þingmenn komum fram, hvort sem það er á félagsfundum, opnum fundum, í fermingarveislum eða við hittum almenning á götu, að menn biðja okkur lengstra orða að gæta orða okkar, vanda vinnubrögð og hætta þeim orðaleik og þeirri framkomu á Alþingi sem hefur verið að sækja í sig veðrið á skömmum tíma. Við vitum þetta öll, svipur Alþingis hefur breyst. Hér varð rof á mörgum sviðum í hruninu, það varð ákveðið siðrof, það er reiði í þjóðfélaginu og sú reiði og það siðrof endurspeglast hingað í ræðustól Alþingis.

Okkur stjórnmálamönnum ber skylda til að vera sá styrkur og sú fyrirmynd sem þjóðin þarf á að halda í þeim erfiðleikum sem við erum að ganga í gegnum. Því er mikilvægt að við vöndum bæði orðaval og ræðuhefð á Alþingi en brugðið hefur út af því og það er miður.

Hver og einn ber ábyrgð á sínum gjörðum og málflutningi, það getur enginn annar gert það. En við getum öll sem ein heild reynt að vanda okkur og breyta áherslum og það er ekki að ástæðulausu sem þjóðþing annarra landa hafa tekið upp siðareglur. Og nú er að störfum þingskapanefnd sem er að fara yfir þingsköp Alþingis og m.a. mun verða tekið á því (Forseti hringir.) að setja siðareglur hér á Alþingi og ég held að það sé vel og vona að við munum þá í framtíðinni vinna samkvæmt því.