139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

svar við fyrirspurn.

[14:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hinn 14. mars sl. lagði ég fram fyrirspurn á hv. Alþingi til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um launagreiðslur til stjórnenda banka, skilanefnda og slitastjórna. Fyrirspurnin var lögð fram með leyfi hæstv. forseta eins og venja er með fyrirspurnir og verður þar af leiðandi að líta svo á að forseti hafi talið hana bæra til að fá við henni svar. Spurt var um mánaðarlegar launagreiðslur til æðstu stjórnenda gömlu bankanna þriggja og nýju bankanna eftir að þeir tóku við. Spurt var um launagreiðslur til skilanefndarmanna og slitastjórnarmanna og hvernig laun þessara stjórnenda væru ákveðin.

Nú hefur borist svar, tveimur mánuðum síðar, frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í tíu línum þar sem hann upplýsir að hann geti því miður ekki svarað þessari fyrirspurn, upplýsingarnar séu að vísu allar aðgengilegar, opinberar í skýrslum og gögnum en ráðuneytið geti ekki veitt svar við þessum spurningum. Það hefur tekið ráðherrann tvo mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að svara sjálfsögðum spurningum af þessum toga. Ég tel þetta mjög ámælisvert og ætlast til þess að (Forseti hringir.) virðulegi forseti taki þetta mál upp við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og krefji hann svara við fyrirspurninni.